139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að lýsa yfir verulegum áhyggjum af fundarstjórn forseta, ekki þess sem nú situr heldur þeirra sem á undan hæstv. forseta sátu fyrr í kvöld vegna þess að við kölluðum eftir því fyrir kvöldmat að þeir alþingismenn sem báðu sérstaklega um að haldinn yrði kvöldfundur til að ræða undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútvegsmál, við okkur í minni hlutanum, sitja einfaldlega ekki í salnum undir þessari umræðu nema í mjög takmörkuðum mæli. Þess vegna fer ég fram á það, ég er næstur á mælendaskrá, að við getum átt orðræðu við stjórnarliða um málið. Ég vil taka sérstaklega fram að umræður um það hafa verið mjög yfirvegaðar og málefnalegar og við erum að tala um mjög umfangsmikinn málaflokk og það er eðlilegt að hv. þingmenn vilji leggja eitthvað til umræðunnar áður en málið fer til nefndar. Ég hvet því hæstv. forseta til að kalla hæstv. ráðherra, forustumenn ríkisstjórnarinnar, til þessa fundar og eins að gera þeim þingmönnum sem samþykktu kvöldfund viðvart um að fundurinn standi.