139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra að vissulega varða sjávarútvegsmálin utanríkismál. En ég sé ekki makalaus fingraför utanríkisráðherra eins og þau eru af hálfu fjármálaráðherra í þessu frumvarpi þar sem fjármálaráðuneytið og undirmenn hans, sem hann ber ábyrgð á, eru beinlínis að segja að frumvarpið geti stangast á við stjórnarskrá. Ekki hef ég orðið vör við það að hæstv. utanríkisráðherra hafi verið að krafla þannig í frumvarpið að senda frá sér jafnmakalausa umfjöllun. (Gripið fram í: Þetta er um fundarstjórn.)

En síðan er hitt, ég er ósammála hæstv. utanríkisráðherra um það að reyna að segja að hæstv. forsætisráðherra eigi ekki að vera viðstödd þessa umræðu. Það kann vel að vera að hæstv. forsætisráðherra sé vant við látin klukkutíma og klukkutíma en henni ber skylda til og ætti að sjá sóma sinn í því að vera hér undir umræðunni í þessu mikilvæga máli, ekki síst þegar hún talaði niður til heillar atvinnugreinar á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar, eins og var um síðustu helgi þar sem ekki var hægt að fara í rökræður við hana. Það er enginn sómi eða heiður að því.