139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:17]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson talaði hér eiginlega um bæði frumvörpin þó að frumvarpið um heildarlöggjöf í fiskveiðistjórn sé ekki komið á dagskrá. (Gripið fram í.) Það er ekki til umræðu, ekki er búið að mæla fyrir því. Hvað um það.

Þingmaðurinn kvartaði undan því að lítið samráð hefði verið haft varðandi fiskveiðistjórnarmálin öll, ekkert samráð sagði þingmaðurinn orðrétt. Mig langar að leiðrétta þetta. Samráðið hefur náttúrlega staðið í tvö ár. Hins vegar er góðu heilli liðin sú tíð þegar LÍÚ fékk að semja sín frumvörp fyrir stjórnvöld.

Ekki er heldur rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að engin hagfræðileg úttekt hefði farið fram á því t.d. hversu hátt veiðigjald útgerðin mundi hugsanlega þola. Í nefndinni sem skipuð var og starfaði í eitt og hálft ár, viðræðunefndinni svokölluðu, var einmitt gerð slík úttekt sem sýndi fram á að útgerðin mundi þola bærilega vel a.m.k. helmingi hærra veiðigjald en það sem er til umræðu núna.