139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

839. mál
[14:55]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir andsvarið. Það er rétt hjá honum að löggjöf um fiskveiðistjórn er mjög tæknileg og við komumst að því þegar við vorum að vinna þetta frumvarp að við hefðum getað haft samband við 500 mismunandi aðila um útfærslur á fiskveiðistjórnarkerfinu og við hefðum sennilega fengið 700 eða 800 tillögur um hvernig væri best að gera það.

Niðurstaðan varð sú að höfðu samráði við nokkra menn að hafa þetta einfaldlega frumvarp sem snýst um prinsippatriði og einfalt í sniðum þar sem aðkoma til dæmis stjórnmálamanna, hvort sem væri á vettvangi ríkisins eða sveitarfélaga, væri sem minnst og að sem stærstur hluti kerfisins væri einfaldlega markaðsvæddur að því marki að kvótanum er úthlutað á þær byggðir sem höfðu hann í upphafi þegar kvótinn var settur á. Þeim er skylt að setja hann á uppboð. Uppboðsparturinn af þessu er eins og svo margt annað bundinn tilteknum útfærsluatriðum, það eru til margar tegundir af uppboðum, fer svolítið eftir því hvað menn eru að bjóða upp hverju sinni og inn á hvers konar markaði. Það eru til dæmis til ákveðnar tegundir af uppboðum sem koma í veg fyrir að einn aðili nái að sölsa undir sig allt sem boðið er upp. Það eru til uppboð þar sem komið er í veg fyrir að sá sem býður hæst þurfi endilega að bera mjög skarðan hlut frá borði vegna þess að hann hefur verið of svartsýnn á það að ná til sín tiltekinni hlutdeild. Það eru útfærsluatriði eins og fjölmargt annað í þessu frumvarpi sem eru bara bundin við tæknilega útfærslu.

Hreyfingin ráðfærði sig við talsverðan hóp af fólki sem ég er með á skrá einhvers staðar niðri, m.a. og þá sérstaklega hagfræðinga og fiskifræðinga. Þetta varð niðurstaðan, einmitt að hafa frumvarpið sem minnst í sniðum og láta það snúast sem mest um ákveðin prinsippatriði þar sem byggðasjónarmið, réttlætissjónarmið og hagkvæmnissjónarmið gætu komið fram án þess að stjórnmálamenn væru mikið með puttana í málinu.