139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

839. mál
[14:59]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Margur heldur mig sig, segir einhvers staðar. Hreyfingin er einfaldlega ekki gæslumaður sérhagsmunaafla hér á Alþingi Íslendinga, (Gripið fram í.) hefur aldrei verið og verður aldrei.

Við höfðum meðal annars samráð við hæstv. sjávarútvegsráðherra, sérfræðinga í sjávarútvegsráðuneytinu og þann mann sem var fyrir okkur í sáttanefndinni, Finnboga Vikar. Við höfum haft samband við útgerðarmenn í Vestmannaeyjum, á Austfjörðum, Norðurlandi og Snæfellsnesi. Við höfum fengið samtöl og upplýsingar frá fjölda útgerðarmanna sem hafa ekki viljað láta nafns síns getið vegna hugsanlegra afleiðinga af hálfu einhverra annarra sem ég tjái mig ekki um.

Hvað varðar það að við séum að gæta hér sérhagsmuna leyfi ég mér að benda á að í frumvarpinu er lagt til að aflaheimildir verði afhentar sveitarstjórnum á Íslandi til uppboðs. Þangað fer arðurinn af auðlindinni. Það má svo sem vel hugsa sér að í hugarheimi hv. þingmanns sé Hreyfingin í samsæri með hverri einustu sveitarstjórn á landinu um að þær auðgist á þessu máli og veiti svo fé í framhaldi af því til Hreyfingarinnar en það er einfaldlega ekki rétt. Við förum þessa sveitarstjórnarleið vegna þess að við teljum að þær sjávarbyggðir í kringum landið sem hafa orðið til vegna fisksins á miðunum fyrir utan byggðirnar eigi að stunda veiðar. Það er ekki út af neinu öðru. Samsæriskenningar um annað eru rangar.

Hvað varðar það að allur afli fari til vinnslu á innlenda markaði er hér um að ræða uppboðsmarkaði sem allir hafa aðgang að, bæði innlendir fiskframleiðendur og erlendir, þannig að þar er ómögulegt að gæta hagsmuna nokkurs einstaks aðila. Við erum hins vegar að færa þessa hagsmuni frá þeim útgerðarmönnum sem meðal annars hafa flutt fisk út beint í gámum á erlenda markaði og keypt sér sjálfir þyrlur fyrir arðinn.