139. löggjafarþing — 145. fundur,  8. júní 2011.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Við erum heppin í stjórnarliðinu að hafa haft í vetur góða stjórnarandstöðu. Auðvitað segir hún okkur til syndanna en hún hefur verið venju fremur jákvæð og heldur því á erfiðum tímum til haga hve við búum að traustum innviðum í auðlindum, í lífeyrissjóðum okkar, í menntuðu fólki, í sterkum útflutningsatvinnuvegum. Í verkefnum hversdagsins trúir hún því jafnan að við höfum náð meiri árangri en við í stjórnarliðinu höfum þó talið, því að hún telur jafnan að hægt sé að ganga lengra og gera meira fyrir fleiri og er þannig jákvæð í gagnrýni sinni um það að við getum gert betur.

Gott dæmi um þá jákvæðu strauma sem frá henni koma er nú krafan um það að fyrir jól afnemum við í landinu gjaldeyrishöft. Allir vita að til þess að afnema gjaldeyrishöft þarf að ríkja innan lands og erlendis víðtækt traust á íslensku efnahagslífi. Það er gott að stjórnarandstaðan hefur það traust á íslensku efnahagslífi að hún telji að það megi falla frá höftunum fyrir jól. Það er í raun og veru mikil viðurkenning um þann algera viðsnúning í efnahagsmálum sem orðið hefur í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem á undraskömmum tíma hefur stýrt þjóðarskútunni úr hættu á þjóðargjaldþroti í það að allir spáaðilar eru einróma um að hér verði vöxtur í efnahagslífinu í ár. Það er full ástæða fyrir okkur til þess að taka þessi bjartsýnu viðhorf stjórnarandstöðunnar og spáaðila með okkur inn í sumarið.

Við höfum líka fleiri tilefni en stjórnarandstöðuna til þess að vera bjartsýn. Við höfum tölur Hagstofunnar í dag um efnahagsvöxt hér á fyrsta ársfjórðungi ársins. Við höfum tölur um skuldatryggingarálag á Ísland sem fer sífellt lækkandi og ber vott um að við njótum meira trausts erlendis, og við höfum nýjar fréttir frá Hafrannsóknastofnun um aukin og betri aflabrögð í þorskveiðum á næstu árum sem gefur okkur líka tilefni til bjartsýni. En við megum ekki missa okkur, við þurfum að muna að sígandi lukka er best og að kapp er best með forsjá. Hér verður ekki, þó að stjórnarandstaðan gjarnan vildi, hægt að gera allt fyrir alla. Við erum ekki komin yfir erfiðleikana en okkur miðar vel áfram.

Það er sérstaklega fagnaðarefni að kjarasamningarnir nú hafa gefið okkur tækifæri til þess að hækka lægstu launin í landinu og að hækka bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur. Það minnir okkur á það í sumarbyrjun hversu mikilvægt það er að félagshyggjuöflin verði ekki bara fengin til þess að moka flórinn heldur líka til þess að láta sjónarmið um jöfnuð og sanngirni ráða för nú þegar vöxtur er að færast í efnahagslífið og við getum deilt ávinningnum af því með okkur.

Við munum ekki geta skapað á allra næstu missirum þau gervilífskjör sem hér var haldið uppi síðustu dagana fyrir hrun, en við getum og við skuldum sjálfum okkur að skapa hér sanngjarnara samfélag, að endurreisa ekki bara það sem var heldur endurreisa betra Ísland. Það er mikilvægt til að skapa aukna sátt í samfélaginu eftir efnahagshrun. Lykilatriði um að auka sátt í samfélaginu eftir efnahagshrunið er að tryggja eign almennings á auðlindum landsins í nýjum auðlindasjóði.

Hvers vegna að efna til þess ófriðar? spyrja hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal. Jú, vegna þess að það er fólkið í landinu en ekki flokksgæðingar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem eiga fiskinn í sjónum. Og það er grundvallaratriði að tryggja að það verði líka fólkið í landinu sem eigi hinar miklu orkuauðlindir Íslands en ekki erlendir auðhringir. Það er stærsta pólitíska verkefni okkar samtíðar.

Við þurfum að læra af hruninu. Við þurfum að tryggja það fyrir börnin okkar og fyrir komandi kynslóðir að aldrei aftur verði hægt að veðsetja upp í rjáfur þær auðlindir sem við fengum í vöggugjöf og leika sér með afraksturinn í kauphöllum heimsins og tapa því svo á einni nóttu. Við sluppum núna með skrekkinn en það er skylda okkar að nota þennan lærdóm til að tryggja með lögum á Alþingi Íslendinga að það sé almenningur sem eigi þessar auðlindir.

Það eru hafin mikil átök um fyrstu skrefin í því og þið munuð sjá mikið moldviðri hér frá Alþingi frá sérhagsmunagæslusveit Sjálfstæðisflokksins. Hún mun einskis láta ófreistað í málþófi og ræðum um fundarstjórn forseta, reyna að þvælast fyrir þingstörfum fram og til baka. Látið ekki blekkjast, það er hin gamla glíma sem hér fer fram milli sérhagsmunanna og almannahagsmunanna. Ég heiti á sérhvern Íslending að leggja ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lið í þeirri orrustu svo að almannahagsmunirnir megi sigra í þeirri orrustu sem hafin er, orrustunni um auðlindir Íslands.