139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[20:05]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar upplýsingar. Ég er að heyra þær fyrst núna. Ég var við upphaf þingfundar og varð þess ekki áskynja að hæstv. forseti Alþingis óskaði eftir því að fundur stæði lengur en þingsköp gera ráð fyrir. Það er því rétt ábending hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að samkvæmt reglum sem hér er starfað eftir ætti með réttu að vera búið að slíta þingfundi.

En ég þakka hæstv. forseta fyrir veittar upplýsingar. Við munum auðvitað ganga eftir þeim hjá forustu þingflokks okkar en áskiljum okkur fullan rétt til að ræða fundarstjórn forseta ef ástæða þykir til og þær upplýsingar sem hæstv. forseti veitti eru ekki örugglega í samræmi við það sem þingflokksformenn hafa orðið ásáttir um.