139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og er í stærstu dráttum sammála þeim áherslum sem þar komu fram, sérstaklega því sem lýtur að ágreiningsefninu sem snertir spurninguna um kæruaðild varðandi lögvarða hagsmuni eða almenna kæruaðild. Það er ljóst af þeim umsögnum sem við höfum fengið í umhverfisnefnd að velflestir umsagnaraðilar gera það að umtalsefni að þeir óttist að sú flókna stjórnsýsla sem um þessi mál gilda í dag verði enn verri viðfangs en nú er ef frumvarpið verður að lögum með þeim ákvæðum sem þarna liggja inni.

Til marks um það sem hefur komið fram í umsögnum get ég nefnt sem dæmi að við framkvæmdir vegna undirbúnings og byggingar einnar jarðvarmavirkjunar eru á annan tug kæranleg stig í því ferli öllu. Og við það að opna fyrir almennu kæruaðildina óttast menn að flækjustigið verði enn erfiðara viðfangs. Það hefur líka komið fram í umsögnum að hægt sé að kæra þetta á mismunandi stigi í ferlinu öllu, alveg frá grunni og til loka. Ég hjó eftir því í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að þar eru menn að velta því fyrir sér hvort þetta tiltekna atriði, þ.e. að hægt sé að kæra framkvæmdir oftar en einu sinni til nefndar á misjöfnum stigum, geti valdið því að málsaðilar muni krefjast þess að einstakir nefndarmenn í úrskurðarnefndinni verði vanhæfir vegna ákvarðanatöku á fyrri stigum. Og þar sem hv. þingmaður er lögfræðimenntaður maður — kona, (Gripið fram í: Maður.) maður, afsakið, hv. þingmenn, ég sá bara hvernig á mig var litið — (Forseti hringir.) þá vildi ég gjarnan inna hana eftir afstöðu hennar til þessarar athugasemdar Sambands íslenskra sveitarfélaga.