139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:58]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Ég mótmæli enn og aftur þeirri fullyrðingu ágæts (Forseti hringir.) þingmanns að ég hafi farið fram á fölskum forsendum og logið að kjósendum. Það er einfaldlega rangt og ég sætti mig ekki við, frú forseti, að sitja undir slíkum áburði hér í þingsal og mér er slétt sama hvað þingmanninum finnst um mig prívat og persónulega, (Gripið fram í.) bara slétt sama um það. (MÁ: Hver laug?)

Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji og sé því sammála að sú áætlun sem hér liggur fyrir sé vænleg til árangurs þar sem hún er hvorki greind sérstökum viðmiðum né heldur tímasett. Ég held að það muni skipta máli.

Svo svaraði hv. þingmaður ekki þeirri spurningu sem ég beindi til hans í andsvari mínu af því hann er svo upptekinn af því að halda áfram að segja hvað Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki gert. Það verður að vera hans verkefni.

Ég sagði í ræðu minni að það þyrfti að skoða peningamálastefnuna og lagði áherslu á að allir flokkar þyrftu að koma að því, sérfræðingar úr atvinnulífi og aðrir. Það er því rangt að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi lagt fram neina lausn í því hvernig við eigum að nálgast verkefnið.