139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[19:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, að sjálfsögðu. Að sjálfsögðu. Raunar var það sá farvegur sem ég og fleiri héldum að málin væru komin í eftir þá niðurstöðu sem náðist í júní. Þann 11. júní, hygg ég að hafi verið, var lagt fram frumvarp, sem hv. þingmenn þekkja, sem fól í sér að bætt var eilítið við gildistíma núgildandi hafta til að ráðrúm gæfist í sumar til að skoða málið, til að tækifæri gæfist til að fara í faglega úttekt og þá um leið einhverja vinnu við að leiða málin til lykta þannig að sem víðtækust samstaða gæti náðst á hinum pólitíska vettvangi.

Nú liggur fyrir, þremur mánuðum síðar, að ekkert hefur gerst. Við stöndum í sömu sporum hér í dag og í byrjun júní þrátt fyrir að málin hafi lent í strandi þá. Menn voru sammála um að losna úr þeirri blindgötu, því öngstræti, með tilteknum aðferðum. Nú, þegar málið kemur aftur á dagskrá þingsins, erum við enn stödd á sama stað og ekkert hefur verið gert í millitíðinni. Er þá nokkuð annað að gera en að taka málið af dagskrá? Er þá nokkuð annað að gera en að leiða menn að borðinu og búa til einhverja aðgerðaáætlun varðandi þessar lögfræðiúttektir, hagfræðiúttektir og síðan nauðsynlegt pólitískt samráð? Kannski þurfum við tíma til áramóta til þess, en þá eigum við líka bara að framlengja höftin til áramóta, ekki til ársloka 2015.