139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[10:38]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923, með síðari breytingum.

Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umræðu og hefur fengið á sinn fund Dýrleif Kristjánsdóttur hdl.

Nefndin ræddi að nýju um yfirstjórn vatnamála. Samkvæmt 2. mgr. 78. gr. frumvarpsins mun Orkustofnun fara með stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt lögunum. Stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar sem teknar yrðu á grundvelli laganna mundu sæta kæru til iðnaðarráðherra, samanber 3. mgr. 78. gr. Nú bíður 3. umræðu frumvarp til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (þskj. 1228, 709. mál) en frumvarpið var unnið samhliða frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót ný, sjálfstæð úrskurðarnefnd sem fái heitið úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Nefndin mun samkvæmt 1. gr. frumvarpsins hafa það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála. Í ljósi þessa er það mat nefndarinnar að rétt sé að leggja til þá breytingu að ákvarðanir Orkustofnunar er snerta mannvirkjagerð eða aðrar framkvæmdir sem fjallað er um í VI. kafla vatnalaganna, sem lúta að mannvirkjagerð, miðlun vatns, varnir lands, þurrkun o.fl., skuli sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Nefndin ræddi einnig ráðstöfunarheimildir opinberra aðila. Nefndin vill árétta það sem fram kemur í nefndaráliti á þskj. 1822 að nauðsynlegt sé að kveða á um að afnotaréttur til umráða og hagnýtingar á vatni skuli vera óbreyttur miðað við gildandi vatnalög, eða 65 ár. Verði hins vegar að lögum frumvarp iðnaðarráðherra um breytingar á þeim ákvæðum vatnalaga, nr. 15/1923, og laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem fjalla um hámarkstíma afnotaréttar fyrir nýtingu vatnsafls mun hámarkslengd leyfilegs leigutíma á nýtingarrétti auðlinda, samanber ákvæði 3. mgr. 17. gr. frumvarpsins, breytast að sama skapi.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögu sem gert er ráð fyrir á sérstöku þingskjali.