140. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2011.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Annað árið í röð fer þingsetning fram í skugga einhverra fjölmennustu mótmæla sem sést hafa um langt skeið. Það fólk sem stóð fyrir framan Alþingishúsið á laugardaginn og stendur hér fyrir utan í kvöld er ekki að lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er að mótmæla því ástandi sem ríkir á Íslandi í dag. Það vill vinnu. Það vill bætt lífskjör. Það vill geta greitt af lánum sínum. Það mótmælir verðbólgunni og áhrifum hennar á verðtrygginguna. Það mótmælir einnig öllum þeim hækkunum og álögum sem á það hafa verið lagðar á síðustu missirum í miðri efnahagslægðinni. Það krefst þess að aðgerðir fyrir heimilin skili tilætluðum árangri. Ítrekað er fólki sagt að öllu svigrúmi sem bankarnir hafa til skuldaleiðréttinga hafi verið ráðstafað og jafnvel rúmlega það en næsta dag berast svo fréttir af miklum hagnaði, gríðarlegum hagnaði bankanna, og maður hlýtur að spyrja sig: Er nema von að slíkt valdi ólgu og vonbrigðum?

Atvinnulífið er búið að fá nóg. Þetta kom fram á fundi Samtaka atvinnulífsins í vikunni með skýrum hætti. Sama hversu sár og svekkt hæstv. forsætisráðherra er vegna þess sem þar kom fram er þetta staðreynd. Nú er svo komið að atvinnulífið tekur ekki lengur mark á orðum ríkisstjórnarinnar, hvorki skriflegum né munnlegum yfirlýsingum hennar. Heimilin í landinu eru líka búin að fá nóg eins og mótmælin við Alþingishúsið sýna, meira að segja lögreglan er búin að fá nóg.

Góðir landsmenn. Nú um stundir er mönnum tíðrætt um virðingu þingsins og það hefur að sjálfsögðu ekki farið fram hjá neinum sem hér starfar að mjög hefur dregið úr trausti til Alþingis. Við því verður að bregðast og sjálfsagt er að fyrirkomulag umræðunnar í þinginu verði einn þeirra þátta sem skoðaðir verða. Hins vegar er það einlæg sannfæring mín að traust til Alþingis muni hér eftir sem hingað til fyrst og fremst fara eftir þeim árangri sem næst héðan af Alþingi. Svo einfalt er það. Til að skila árangri þurfa aðgerðir og áherslur stjórnvalda að fara saman við væntingar fólks og þarfir þess. Á því hefur orðið alvarlegur misbrestur.

Góðir landsmenn. Vegna umræðunnar um þras hér í þinghúsinu er rétt að benda á að ríkisstjórnin fer með dagskrárvaldið. Það eru fjölmörg mál sem hægt væri að ná mjög góðri samstöðu um en ríkisstjórnin setur á dagskrá hvert átakamálið á fætur öðru. Það er nánast regla að ekki er einu sinni samstaða í stjórnarflokkunum um hvernig slík mál eigi að leiða til lykta. Augljósasta dæmið er ákvörðunin um að sækja um aðild að Evrópusambandinu, áformin frá árinu 2009 um breytingar á stjórnarskránni eru dæmi um mál þar sem ekki einu sinni var haft fyrir því að ræða við stjórnarandstöðuna um sjálfa stjórnarskrána. Það er einsdæmi í þingsögunni. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðistjórninni er enn eitt dæmið. Er nema von að við í stjórnarandstöðunni höfum hreyft andmælum við því máli? Ekki einn einasti aðili sem fékk það mál til umsagnar mælti með því að málið yrði samþykkt. Ég hef ekki enn minnst á Icesave-klúður ríkisstjórnarinnar, málið sem kallaði á lengstu umræðurnar.

Ég fullyrði í tilefni af þessari umræðu að þetta er ekki ákall um að umræða um mikilvæg mál verði stytt í þinginu, ekkert sérstakt ákall um það, ákallið er um að það sem hér fer fram skili árangri. Þeir sem standa hér fyrir utan vita að það er hægt að ná árangri, ella kæmu menn ekki til að mótmæla, ella beittu menn þingið engum þrýstingi. Allir vita að hægt er að gera svo miklu, miklu betur.

Það hjálpar síðan ekki virðingu fyrir stjórnvöldum þegar forseti Íslands og ríkisstjórnin eru komin í hár saman og senda hnútur sín á milli. Sama gildir þegar meiri hluti þingsins hefur niðurstöðu Hæstaréttar að engu eins og gerðist í stjórnlagaþingsmálinu. Pólitísk réttarhöld bæta heldur ekki ástandið. Nú hefur landsdómur vísað tveimur veigamestu liðum ákærunnar frá dómi og þótt hluti málsins fái nú efnislega meðferð breytir það engu um eðli málsins, hið pólitíska eðli þess. Réttast væri auðvitað að fella þessa saksókn niður.

Frú forseti. Ég spyr mig að því: Hvaða tilgangi á það að þjóna þegar einstaka þingmenn mæta ekki við þingsetningu í mótmælaskyni við forsetann? Telja þeir slíka framkomu til þess fallna að auka veg og virðingu Alþingis? Hvers vegna er hópur þingmanna á móti þeirri venju og góðu hefð að mæta til kirkju við þingsetninguna? Fyrir ári síðan hafði forsætisráðherrann það á orði, án þess að gefa á því neinar skýringar, að hún íhugaði að segja sig úr þjóðkirkjunni. Hvers vegna er það sem héðan úr þinginu er verið að tala niður helstu stofnanir þjóðfélagsins, hornsteina þess, einmitt þegar við þurfum mest á þessum styrku stoðum samfélagsins að halda?

Á öldum ljósvakans heyrist að í landinu sé einhvers konar stjórnmálakreppa. Fyrir mér er þetta einfaldlega stjórnarkreppa. Algert stefnuleysi þeirra sem fara með völdin.

Góðir Íslendingar. Við sjálfstæðismenn höfum allt frá síðustu kosningum hafnað þeirri efnahagsstefnu sem hér hefur verið fylgt. Við höfum sagt að ef til stæði að byggja efnahagsendurreisnina á skattlagningu og niðurskurði væri hættan sú að við lentum í vítahring. Vítahringur skattahækkana og niðurskurðar er því miður staðreynd, sú dapra staðreynd birtist í fjárlagafrumvarpinu.

Þegar ég fer á fundi hvar sem er á landinu er mjög gjarnan spurt: Hvað er hægt að gera til að breyta þessu ástandi? Svarið er að það er bara ein leið út úr þeirri efnahagslægð sem við höfum ratað í og hún er sú að hefja nýtt skeið öflugs hagvaxtar.

Við upphaf þessa þings mun Sjálfstæðisflokkurinn enn á ný leggja fram efnahagsáætlun sem varðar leiðina fram á við. Ég fullyrði að stjórnarandstöðuflokkur hefur aldrei teflt fram metnaðarfyllri áætlun um úrbætur í efnahagsmálum en þeirri sem við munum nú tefla fram. Meginmarkmiðið er að skapa störf. Við viljum hjálpa þeim sem geta unnið að komast af bótum og til verðmætaskapandi starfa. Það er sameiginleg skylda allra stjórnmálamanna í þessu landi að segja atvinnuleysinu stríð á hendur.

Til að hagvöxtur geti hafist þarf frið um mikilvægustu atvinnugrein okkar, sjávarútveginn. En vegna óvissunnar hefur arðbær fjárfesting í þeirri atvinnugrein hrapað úr um 19 milljörðum, eins og hún var síðastliðinn áratug, niður í um 4,5 milljarða síðustu þrjú ár.

Við viljum efla sjávarútveginn, ekki grafa undan þessari mikilvægu atvinnugrein okkar með viðvarandi óvissu. Engri þjóð hefur tekist að reka sinn sjávarútveg með jafnarðbærum hætti og við Íslendingar. Það er verkefni okkar stjórnmálamannanna að búa þannig um hnútana að greinin skili enn meiri arði en hún gerir í dag. Vegna þeirrar kröfu sem er til staðar og verður að taka tillit til, um að auðvelda endurnýjun í þessari grein, fullyrði ég að það er vel hægt að finna leiðir í þeim efnum án þess að kollvarpa sjálfum undirstöðum greinarinnar.

Góðir landsmenn. Við eigum líka að nýta orkuna í landinu. Við getum gert það til að skapa störf og auka verðmæti. Við eigum svo mörg tækifæri á þessu sviði, tækifæri á sviði endurnýjanlegrar orku til uppbyggingar í orkufrekum iðnaði, að það væri fráleitt við núverandi aðstæður að nýta þau ekki til uppbyggingar samfélagsins. En það er þyngra en tárum taki að ríkisstjórnin skuli bregða fæti fyrir hvert tækifærið á þessu sviði á fætur öðru.

Við leggjum til að skattar og álögur á fólk og fyrirtæki verði lækkaðir að nýju til að auka ráðstöfunartekjur þess.

Einn mikilvægasti þáttur okkar tillagna er áætlun um hvernig örva megi fjárfestingu í landinu. Fjárfesting er skjótvirkasta leiðin til þess að ná hér efnahagsbata. Komist fjárfestingastigið í lag á Íslandi munu allir finna fyrir því, iðnaðarmenn og verktakar, fiskverkafólk, þjónustufyrirtæki við sjávarútveg og aðrar mikilvægar greinar. Hvar sem er á landinu mun fólk finna fyrir því að við erum aftur farin að vaxa.

Við munum leggja fram tillögur sem miða að því að skapa fyrirtækjunum í landinu, stórum sem smáum, heilbrigð rekstrarskilyrði. Það þarf að koma fyrirtækjum sem tekin hafa verið yfir af bönkum og lífeyrissjóðum í eðlilegt eignarhald að nýju og leggja áherslu á heilbrigða samkeppni. Auðvitað er óþolandi fyrir þá sem hafa þurft að leggja allt undir til að halda fyrirtækjum sínum gangandi að keppa við fyrirtæki sem hafa verið tekin yfir og er haldið gangandi í fullri samkeppni í skjóli ósýnilegs fjármagns.

Sjálfstæðisflokkurinn mun loks leggja fram framkvæmdaáætlun sem miðar að því að halda áfram uppbyggingu innviða landsins til að styrkja samkeppnisstöðu okkar til framtíðar. Á þessi atriði og mörg fleiri munum við sjálfstæðismenn leggja áherslu á Alþingi á komandi vikum og mánuðum. Verði þessari stefnu hrint í framkvæmd mun Ísland endurheimta stöðu sína sem eitt af þeim ríkjum veraldar þar sem hagsæld ríkir, sem land þar sem fólk vill búa en keppist ekki við að yfirgefa eins og nú er. Við höfum alla möguleika til að sækja fram. Í dag eru framkvæmdir hins vegar við frostmark og fjárfestingar eru meðal þess allra minnsta sem þekkist á Evrópska efnahagssvæðinu.

Nýlega var greint frá því að pólitísk áhætta af því að fjárfesta hér á landi sé svipuð og í Líbíu, Sambíu, Sádi-Arabíu og slíkum ríkjum. Með fullri virðingu fyrir því sem þar er að gerast eigum við ekkert heima í þeim flokki. Það er undarlegt að við þessar aðstæður skuli forsætisráðherra Íslands telja sig vera í aðstöðu til þess að lýsa því ítrekað yfir að erlendir aðilar eigi ekki orð yfir því hversu vel ríkisstjórninni hafi tekist til í endurreisnarstarfinu.

Frú forseti. Góðir Íslendingar. Við stöndum sem þjóð á tímamótum. Við þurfum að gera það upp við okkur nú hvort við ætlum að rísa upp, sækja fram og grípa til þeirra aðgerða sem duga til að koma okkur aftur í fremstu röð meðal þjóða heims eða hvort við ætlum að sætta okkur við þá stöðnun sem hér hefur ríkt frá síðustu þingkosningum. Allir sjá að ríkisstjórnin er komin að fótum fram. Aðgerðaleysiskostnaðurinn er orðinn svo mikill og dýrkeyptur þjóðinni að við það verður ekki búið lengur Krafa okkar sjálfstæðismanna er skýr: Við þurfum nýja ríkisstjórn og nýja stjórnarstefnu. Við þurfum nýtt upphaf. Okkar krafa er sú að hér verði gengið til kosninga og spilin stokkuð upp að nýju.