140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[17:30]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Mér var bent á að stjórnlaganefndin sjálf væri kannski ekki sérfræðinganefnd en hafi hún ekki verið það þegar hún tók til starfa er hún orðin sérfræðinganefnd í því máli sem hér um ræðir.

Stjórnlaganefndin var valin af allsherjarnefnd og allir voru sammála um það þar að treysta þessum sjö manns fyrir verkefninu. Allur þingheimur var á einu máli. Ég upplifði stemninguna þannig að allir væru einfaldlega mjög ánægðir með það val og bæru fullt traust til þeirrar nefndar. Kosturinn við að vísa þessum málum til þeirrar nefndar er að það lendir ekki í þessum flokkspólitísku hjólförum og flokkspólitíska karpi sem það mun annars lenda í í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Það kemur að því að Alþingi sjálft og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þurfi að taka afstöðu til einstakra efnisatriða í nýrri stjórnarskrá. Þetta er ekki tímapunkturinn til þess að mínu mati. Tíminn til að gera það er þegar við höfum fengið leiðbeiningu frá þjóðinni. Þangað til ættum við að nýta sem mest aðkomu og þekkingu sérfræðinga og stjórnlagaráðs, ég held að það væri farsælt.