140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[18:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta svar en ef ég heyrði rétt — nú getur vel verið að svo sé ekki, það mun koma í ljós þegar við kíkjum á ræðuna þegar búið er að rita hana — gerði hv. þingmaður mönnum sem ekki vildu breyta stjórnarskránni upp annarleg sjónarmið, að þeir vildu viðhalda einhverju óréttlæti sem væri í gangi í dag. Þá finnst mér hv. þingmaður vera að tala niður til þeirra sem vilja ekki breytingar, því að ég skil þá þannig að þeir vilji ekki búa til alla þessa óvissu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í öðru andsvari mínu um 79. gr. Nú hefur verið dálítið mikil umræða um hana og ég er búinn að flytja þingmál um að breyta henni. Svo ég fari í gegnum það, frú forseti, gætum við haft það þannig að hér sé samþykkt stjórnarskrá sem allir eru sáttir við en í staðinn fyrir að setja hana í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hefur ekkert gildi og leggja hana svo fram sem þingmál á Alþingi sem þýðir þingrof og nýjar kosningar og nýtt þing, sem samþykkir stjórnarskrána, verði beðið með að setja hana í þjóðaratkvæðagreiðslu, beðið með að leggja hana fram sem frumvarp en eingöngu 79. gr. samþykkt. Svo þegar nýtt þing kemur saman, sem er þá væntanlega sammála þessari stjórnarskrá, getur það lagt fram hina nýju stjórnarskrá viku seinna eða svo, þannig að þetta er engin töf, kannski vika, tíu dagar eða eitthvað svoleiðis. Þá fer hún í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er bindandi, frú forseti. Fyrst samþykkir nýja þingið breytingu á 79. gr. og svo samþykkir það stjórnarskrána í heild sinni, setur það til þjóðarinnar til atkvæðagreiðslu og þá er sú atkvæðagreiðsla bindandi. Það er einmitt það sem ég vil sjá, að þjóðin mín greiði atkvæði um stjórnarskrána sína.