140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[19:29]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu forsætisnefndar um tillögur stjórnlagaráðs til breytinga á stjórnarskrá Íslands. Ég vil byrja á því að fagna mjög þessu verki sem er frumvarp stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga í landinu okkar. Hér hefur áður í umræðunni verið rakið það ferli sem leiddi til þessarar niðurstöðu stjórnlagaráðs, þjóðfundurinn sem ól af sér stjórnlaganefndina og síðar kosningar til stjórnlagaþings sem illu heilli voru dæmdar ógildar af Hæstarétti. Alþingi skipaði stjórnlagaráð í kjölfarið og það hefur hér skilað verki sem í öllum meginatriðum er afar merkilegt og raunar sögulegt.

Hér er gerð markverð tilraun til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins í heild sinni og það er í sjálfu sér tímamótaskref því að hingað til hefur ekki náðst samstaða um heildarendurskoðun á þessu leiðarriti stjórnarskipunar okkar.

Stjórnarskráin er að stofni til eins og við þekkjum frá 1874. Einstökum greinum hennar hefur talsvert verið breytt frá þeim tíma en enn er þó ýmislegt fornt og úrelt í stjórnarskránni, þar á meðal um hlutverk og ábyrgð forseta lýðveldisins sem í gildandi stjórnarskrá ákveður tölu ráðherra og skiptir með þeim verkum, veitir embætti sem lög kveða á um og víkur embættismönnum frá störfum, getur flutt embættismenn milli embætta, gerir samninga við önnur ríki, getur rofið Alþingi og látið leggja lagafrumvörp fyrir þingið.

Þá er ógetið 26. gr. um blessaðan málskotsréttinn sem var dauður bókstafur í stjórnarskránni í 130 ár, þ.e. þar til Ólafur Ragnar Grímsson sem þá hafði setið á forsetastóli í tæp átta ár vakti hann frá dauðum þremur vikum fyrir forsetakosningar í júnímánuði 2004 með því að synja hinum svokölluðu fjölmiðlalögum staðfestingar.

Núverandi forseti Íslands notaði þennan ræðustól við setningu Alþingis á dögunum til að túlka niðurstöðu stjórnlagaráðs, sérstaklega þau ákvæði sem lúta að embætti og hlutverki forseta Íslands. Forseti viðraði þar þá skoðun sína að með tillögunum væru völd forsetaembættisins aukin og tefldi þeirri túlkun fram gegn þeim áherslum á aukið vægi almennings og lýðræðis í stjórnarskipun lýðveldisins sem koma fram í tillögum stjórnlagaráðs. Þessi túlkun forsetans hefur vakið misjöfn viðbrögð og má í stórum dráttum skipta þeim í þrennt.

Í fyrsta lagi hefur forsetinn verið gagnrýndur af meðal annars einstökum fulltrúum stjórnlagaráðs fyrir að rangtúlka niðurstöðu ráðsins.

Í öðru lagi hefur ræða forsetans verið túlkuð sem gagnrýni á meint innbyrðis misræmi milli aukinnar væðingar á lýðræði í tillögum ráðsins annars vegar og hins vegar aukins vægis forseta Íslands.

Í þriðja lagi hefur ræða forsetans síðan verið túlkuð með þeim hætti að hann hafi í reynd verið að hvetja til þess að þing yrði rofið og efnt til nýrra kosninga á vori komanda því að það væri eina leiðin til að tryggja að frambjóðendur í forsetakosningum næsta sumar hefðu fast land undir fótum.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að spyrja gagnrýninna spurninga um það hlutverk sem forsetaembættinu er ætlað varðandi til dæmis skipan embættismanna og þá leiðsögn sem embættinu er veitt um stjórnarmyndanir í því ljósi að sú leiðsögn er ekki fyllilega nákvæm í tillögum stjórnlagaráðs. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að forsetaembættið sé ákveðið nátttröll í stjórnarskipun okkar og með þeim ágætu greinum um til dæmis þjóðaratkvæðagreiðslur, málskot til þjóðarinnar og þingmálafrumkvæði kjósenda í tillögum stjórnlagaráðs sé í reynd lagður málefnalegur grundvöllur fyrir niðurlagningu embættisins eins og við þekkjum það. Það skýtur því nokkuð skökku við að stjórnlagaráð skuli ekki hafa stigið skrefið til fulls og dregið verulega úr pólitísku vægi embættisins í tillögum sínum. Ég tel það að vissu leyti órökrétt í ljósi þeirra skýru áherslna ráðsins á þingræði í landinu hve mikið vægi forsetaembættisins er áfram þegar kemur að þeim atriðum sem ég nefndi.

Þannig má spyrja: Hvaða þörf er fyrir málskotsrétt forseta Íslands þegar þjóðin sjálf hefur fengið sjálfstæðan málskotsrétt? Hvaða þörf er fyrir öryggisventil á Bessastöðum þegar þjóðin sjálf, uppspretta valds hinna kjörnu fulltrúa, hefur öðlast rétt í stjórnarskránni til að koma að löggjafarstarfinu með tilteknum hætti?

Ég tel afar mikilvægt og löngu tímabært að stjórnarskrá lýðveldisins sé tekin til heildarendurskoðunar og tel að eðlilegt hafi verið að setja endurskoðunarvinnuna í þennan farveg, ekki síst í ljósi þess hve illa þingflokkum hafði gengið undanfarna áratugi að ná saman um mikilvægar breytingar.

Ég ætla ekki að fara efnislega í þær tillögur sem koma fram í verki stjórnlagaráðsins að öðru leyti en því að ég tel að II. kafli frumvarps stjórnlagaráðs um mannréttindi og náttúru marki mikil tímamót. Þar er að finna vel ígrunduð ákvæði um náttúru Íslands og umhverfi, þjóðareign á náttúruauðlindum og aðgengi almennings að upplýsingum um umhverfismál svo eitthvað sé nefnt. Þar er sömuleiðis undirstrikað trúfrelsi í landinu, atvinnufrelsi, mannhelgi, skoðana- og tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla.

Ég vil að lokum segja nokkur orð um aðferðafræðina við meðferð þessa mikilvæga máls. Það er alveg klárt samkvæmt 79. gr. stjórnarskrárinnar að Alþingi getur ekki vikið sér undan þeirri ábyrgð að samþykkja breytingar á stjórnarskránni. Á hinn bóginn er afar brýnt að virða það ferli sem skilað hefur þessu merka frumvarpi og það góða verk sem stjórnlagaráð hefur skilað. Ég tel að sem betur fer gefist góður tími núna í vetur til að fara vel yfir þær tillögur sem stjórnlagaráð hefur skilað af sér og að hin nýja stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins eigi að gefa sér þann tíma sem þetta verk verðskuldar til að fara vel yfir þau álitamál sem eðlilega koma upp við lestur þeirra tillagna sem ráðið hefur skilað af sér og hvort það sé nægilegt samræmi á milli einstakra kafla í þessu verki. Síðan er ég eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að nýta það boð sem stjórnlagaráð hefur þegar sent frá sér um að ráðið komi í einhverju formi að þessu ferli núna á vetri komanda og að breytingar sem nefndin kann að vilja gera á því frumvarpi sem lagt hefur verið fram verði bornar undir stjórnlagaráð áður en næsta skref í ferlinu verður stigið sem er að leggja frumvarpið fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að öðru leyti vil ég bara láta þess getið að ég hef mikla trú á því að hin nýja nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hafi þá burði sem til þarf til að vinna þetta verk með sóma. Ég tel mjög mikilvægt að þetta tækifæri sé nýtt til fullnustu til þess einmitt að sýna í verki að Alþingi sé treystandi til að skila þessu vandasama verki af sér þannig að fullur sómi sé að.