140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

norræna hollustumerkið Skráargatið.

22. mál
[17:20]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við lifum á tímum mikilla upplýsinga. Einhvern tíma heyrði ég því fleygt, og veit svo sem ekki hvort það er vísindalega sannað, að eitt dagblað núna á 21. öld innihéldi meiri upplýsingar en venjulegur maður á 19. öld fékk alla sína ævi.

Allar þær upplýsingar sem dynja á okkur alla daga geta verið misvísandi og mig langar að nefna sem dæmi að þegar ég var unglingur byrjaði ég að drekka te vegna þess að ég var mikið í Bretlandi. Í Bretlandi drekka allir krakkar og unglingar te með mjólk. Þannig drakk ég teið mitt lengi vel. Svo las ég í einhverjum rannsóknum að þeir sem drykkju te með mjólk mundu auka líkurnar á að fá hjartasjúkdóma þannig að ég vandi mig af mjólkinni og eftir það hef ég bara drukkið te án mjólkur.

Nokkrum árum eftir það las ég um aðra rannsókn sem sýndi fram á að ef maður notaði ekki mjólk í teið ætti maður á hættu að fá ristilsjúkdóma en hefði maður mjólk í teinu væri sú hætta ekki fyrir hendi. Í mínum huga var það þá val um hjartasjúkdóma eða ristilsjúkdóma. Ég ákvað að halda mig við svart te. Auðvitað hefði ég getað skipt yfir í aðra drykki en þá koma til enn fleiri rannsóknir sem sýna fram á að te er hollara en kaffi, sérstaklega grænt te eins og ég drekk mest, þannig að ég hef bara haldið mig við te án mjólkur.

Allar þessar upplýsingar geta verið mjög misvísandi og það getur verið erfitt fyrir venjulegt fólk að fóta sig í þessum heimi. Það hjálpar svo ekki að auglýsingar geta verið mjög villandi og ýmislegt sem auglýst er sem heilsuvara er alls ekki holl vara ef nánar er að gáð. Við erum líka með ýmsa sjálfskipaða sérfræðinga á þessum næringar- og heilsumarkaði sem eru hreint ekki sérfræðingar í nokkrum sköpuðum hlut og hafa jafnvel sett fram ýmsar bábiljur sem mjög erfitt er fyrir venjulegt fólk að átta sig á hvort eru réttar eða rangar. Á hverju einasta ári fáum við nýja kúra, megrunarkúra og ýmislegt annað, og alltaf sprettur fram ný töfralausn.

Ég er mjög hrifin af hugmyndinni um Skráargatið vegna þess að það er erfitt fyrir fólk að fóta sig í þessum heimi. Við búum við að lífsstílstengdir sjúkdómar eru að aukast, offita er orðin faraldur á heimsvísu. Okkur ber að reyna að vinna gegn því eins og hægt er. Það er mjög tímafrekt fyrir fólk að lesa vel á umbúðir þó að það sé nauðsynlegt og fólk ætti að gera það. Það krefst hins vegar ákveðinnar sérþekkingar. Það eru t.d. til ótal orð yfir sykur, mismunandi sykur. Það er mjög erfitt fyrir fólk að átta sig á sykurmagni í matvörum því að innihaldslýsingin gefur ekki endilega upplýsingar um magn og ef það eru fjórar til fimm gerðir af sykri í vörunni heita þær hver sínu nafni og fólki sýnist sykurmagnið kannski ekki vera svo mikið. Ég styð heils hugar merkingar á borð við Skráargatið.

Mig langar að koma örlítið inn á hverjir geta veitt Skráargatið eða leyft notkun þess. Ég mundi vilja að það væri hjá því sem áður hét Lýðheilsustöð og er nú embætti landlæknis og Manneldisráð heyrir þar undir. Ég tel alla vega heppilegra að það sé hjá fagfólki á sviði næringar frekar en framleiðslu.