140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

norræna hollustumerkið Skráargatið.

22. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að ljúka umræðunni og þakka fyrir þær ábendingar sem hafa komið fram í ræðum hv. þingmanna og kannski bregðast við einhverjum þeirra.

Vara sem kemst í gegnum Skráargatið uppfyllir ákveðin skilyrði, hún getur troðið sér í gegnum skráargatið, ef þannig má orða það — orðið „Skráargatið“ er hugsað þannig. Varan stenst skoðun hvað varðar hollustu.

Mér þótti gott að heyra hv. þm. Margréti Tryggvadóttur tala um allar þær upplýsingar sem fólk fær, fólk á erfitt með að rýna í innihaldslýsingar. Lengi hefur þótt sjálfsagt að upplýsa neytendur um innihald vöru. Aftan á vöruumbúðunum er listi yfir innihald vörunnar og maður verður að vera með stækkunargler og lesa sig niður listann. Ef maður ætlar að gera það við allar vörur kemst maður aldrei út úr búðinni. Þetta er nokkuð flókið. Þess vegna er Skráargatið svo snjallt, það er eiginlega búið að rýna þessar innihaldslýsingar fyrir mann. Þetta er hollasta varan í viðkomandi vöruflokki, það eru hollustuvörurnar sem fá merkið. Ef þú vilt eitthvað óhollt þá velurðu vörur sem ekki eru með merkinu. Þetta gengur mjög hratt fyrir sig.

Þessi umræða minnir mig á annað mál sem við höfum reyndar náð í gegn, það eru transfitusýrurnar. Ísland hefur bannað transfitusýrur í mat, nú komum við enn einu sinni að boðum og bönnum og forsjárhyggju. Danir bönnuðu transfitusýrur í mat, voru fyrsta landið og viti menn Ísland varð annað landið, það er ekkert annað. Á meðan sum ríki hafa sagt: Nei, við skulum ekkert vera að banna transfitusýrur í mat. Fólkið fær upplýsingar, svo verður það bara að lesa sér til og ákveða hvað það vill. En við ákváðum að vera framsýnni að mínu mati og taka þessa ákvörðun fyrir fólk, þ.e. við bönnum transfitusýrur í mat af því að þær eru svo hættulegar og menn vita það. Og það er eiginlega að æra óstöðugan að reyna að láta fólkið sjálft reikna út hvað það þolir mikið af transfitusýrum á dag. Pínulítið hérna, pínulítið þarna, þetta er ekki hægt, eða er mjög erfitt. Við tókum á því. Þetta er svolítið sama eðlis. Það er bara tekin ákvörðun fyrir þig, þ.e. það er búið að stimpla vöruna með Skráargatinu og þá er hún bara best í sínum flokki.

Það er líka dálítið gaman að segja frá því að þar sem þetta merki er notað — ég held ég hafi séð rannsókn frá Danmörku — þekkja 80% neytenda það og vissu fyrir hvað það stóð. Það finnst mér jákvæð og há tala. Fólk tileinkar sér skilaboðin mjög hratt, það átta sig næstum allir sem kaupa mat á því hvað merkið þýðir.

En hvar á þetta kerfi að vistast? Á það að vistast hjá Lýðheilsustöð sem er orðin hluti af landlæknisembættinu eða á það að vistast hjá Matvælastofnun? Þetta þarf að skoða við vinnslu málsins í þinginu. Að því er mér skilst er það þannig í Svíþjóð að það er sambærileg stofnun við Matvælastofnun sem vistar það. Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir kom inn á að það væri kannski vont að vista það mjög nálægt iðnaðinum þá held ég að matvælaiðnaðurinn í heild vilji fá merkið, Skráargatið. Það má vera að einhverjir hópar vilji það ekki en þá er það byggt á alveg hrikalega veikum grunni. Við viljum ekki sýna hollustu matvöru. Hver vill það ekki? Það er þá væntanlega af því að við erum með svo óhollar matvörur en þá verða menn bara að laga sig að þessu og keppast við að gera vöruna hollari.

Hv. þm. Ólafur Gunnarsson spurði út í það hvort ég, sem er 1. flutningsmaður, vissi eitthvað um það hvort verðlag á vörunni breyttist við að fá Skráargatið. Ég þekki það reyndar ekki, átta mig ekki á því. En vel má vera að verðið á vörunni hækki við þetta, hún er þá væntanlega talin betri og æskilegri og framleiðandinn gerir kannski út á það. En fólk velur hve holla vöru það vill borða og því miður er holl vara stundum ansi dýr, eins og grænmeti og gott kjöt. Slík vara er því miður allt of dýr. Ég þekki þetta ekki nógu vel til að geta kveðið upp úr um það en alla vega er rétt að taka þetta merki upp sem fyrst og ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir að hafa tekið þátt í umræðunni og talað á sömu nótum.