140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[13:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig þessi skattur virkar á lífeyrissjóði með ábyrgð opinberra aðila og svo almennu lífeyrissjóðina sem ekki eru með slíka ábyrgð. Þeir sjóðir sem ekki eru með ábyrgð opinberra aðila verða væntanlega að skerða lífeyri og réttindi þegar þeir mæta þessum skatti en fyrir hina skiptir þetta ekki máli vegna þess að ríkið þarf þá að borga hærra iðgjald inn í A-deildina og borga miklu hærri skuldbindingu inn í B-deildina. Þetta hefur í raun engin áhrif, peningarnir fara í hring og menn brosa bara í kampinn og borga skattinn með glöðu geði. Hér er á ný verið að mismuna almenningi, þ.e. fólki sem er í almennu lífeyrissjóðunum og opinberum starfsmönnum. Hefur þetta verið skoðað við gerð frumvarpsins og er þetta yfirleitt tækt?

Svo er það spurningin um útvistun. Sumir lífeyrissjóðir fela banka að sjá um rekstur sinn, bankinn sér þá um allan rekstur og engin laun eru í þeim lífeyrissjóði nema stjórnarlaun. Spurningin er: Gætu fleiri gert það? Gæti það orðið venjan? Þetta er orðin það umtalsverð tala, 10% af öllum launum. Verður ekki bara stofnaður Lífeyrissjóður verslunarmanna hf. sem rekur lífeyrissjóðinn og hefur hann í vörslu og þar sem hann er ekki fjármálafyrirtæki borgar hann þar af leiðandi engan skatt? Það er spurning hvort bankarnir færu kannski líka þessa leið, að flytja út bókhaldið og annað slíkt.