140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður telur að þetta muni ekki koma í veg fyrir öran vöxt fjármálafyrirtækja vil ég bæta við spurningu mína: Er ástæða til að ganga lengra en hér er lagt til og fara þá leið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn talar um, að leggja líka aukaskatt á hagnað? Það gæti að einhverju leyti dregið úr þeim öra vexti sem við urðum svo illilega fyrir barðinu á.

Síðan er líka mjög áhugavert að skoða í upphafi greinargerðarinnar þar sem bent er á að hugsanlega ætti þessi skattur að miðast að einhverju leyti við áhættuna í rekstri fjármálafyrirtækjanna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að nefndin skoði það sérstaklega. Við erum með þrjá stóra banka á Íslandi og þeir ráða yfir í kringum 90% á íslenska bankamarkaðnum. Mitt mat er að eins og staðan er muni íslenska ríkið alltaf þurfa að einhverju leyti að grípa inn í ef einhverjir þessara banka lenda í erfiðleikum. Það þýðir að það er miklu meiri áhætta af rekstri þessara banka gagnvart íslenskum skattgreiðendum en til dæmis af minni fjármálafyrirtækjum, sparisjóðunum. Er ekki ástæða til að taka tillit til þess þegar skatturinn er settur upp í staðinn fyrir að hafa flatan skatt? Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að meta áhættuna sem felst í rekstrinum, sérstaklega hvað varðar íslenskan almenning.