140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna. Ég hefði viljað hafa margt öðruvísi en hefur verið unnið frá því eftir hrun. Við hefðum til dæmis átt að fara mun fyrr í stefnumörkun og vinnu um að móta ákveðna framtíðarsýn fyrir hvernig við viljum hafa fjármálakerfið á Íslandi. Það má segja að hæstv. fjármálaráðherra og raunar bara öll ríkisstjórnin hafi einmitt verið í hinni svokölluðu rústabjörgun og hafi kannski ekki alveg haft nákvæmlega sýn yfir hvað þau eru að gera.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur boðað að hann hyggist leggja hér fram viðamikla skýrslu með hugmyndum sínum um það hvernig og hvers konar fjármálakerfi við eigum að hafa hvað varðar til dæmis stærð. Hér erum við hins vegar komin með frumvarp um ákveðinn bankaskatt sem ég hefði talið að ætti að vera hluti af þeirri vinnu sem fer fram á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins um það nákvæmlega hvernig bankarnir eiga að skila framlagi sínu í ríkissjóð líkt og önnur fyrirtæki gera.

Hv. þingmaður virtist hins vegar hafa áhyggjur af því að þetta mundi ekki skila því sem maður vænti, þetta kæmi ekki í veg fyrir of hraðan vöxt og skerpti ekki á því að bankarnir sinntu fyrst og fremst því sem þeir ættu að sinna, ekki eins og þeir kannski eru í dag, þ.e. meira og minna hálfgerð eignaumsýslufélög.

Telur hv. þingmaður að í staðinn fyrir að leggja á þennan launaskatt væri nær að við legðum skatt á hagnað bankanna? Íslenskum almenningi blöskra hreinlega þær hagnaðartölur sem hafa komið fram í bókum bankanna. Það er mjög einkennilegt í ljósi þess hversu erfiður reksturinn er með 30% (Forseti hringir.) vanskilalán að þeir geti skilað þessum ofboðslega hagnaði ár eftir ár (Forseti hringir.) frá því eftir hrun.