140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:38]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir svarið. Það virkar eins og að við séum að mörgu leyti sammála. Ég vildi þó líka aðeins ræða við þingmanninn um hvort hann teldi ekki ástæðu til þess að skoða einhvers konar áhættustuðul í tengslum við þessa skattlagningu, m.a. ef ríkisstjórnin hefur áfram áhuga á að leggja á þennan launaskatt eða jafnvel bæta við aukaskatti á hagnað. Er ekki í staðinn fyrir að leggja á flatan skatt vert að setja inn einhvers konar áhættustuðul? Við umræðuna um gjaldtöku út af innstæðutryggingarsjóðnum varð ofan á hugmynd um að Fjármálaeftirlitinu yrði falið að móta áhættustuðul sem væri miðað við þegar gjaldtakan þar væri ákveðin.

Hins vegar verð ég að segja að ég varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með þá umræðu. Svo virðist sem menn meti ekki rétt áhættuna af því að vera með of stóra og of fáa banka. Litlar fjármálastofnanir, eins og sparisjóðirnir sem hafa einmitt veitt betri þjónustu sem hefur oft þýtt meira starfsfólk og líka fjármagnað sig fyrst og fremst með innstæðum, sæju fram á að borga jafnmikið eða jafnvel hærra gjald en þessir stóru bankar sem að mínu mati ógna mun frekar efnahagslegum stöðugleika á Íslandi eins og við sáum í hruninu.