140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er sjálfsagt að svara þessari fyrirspurn. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég tók við þessum undirskriftum þar sem settar voru fram ákveðnar kröfur um frekari aðgerðir fyrir heimilin í landinu og þær voru margvíslegar. Á þeim tíma voru uppi nokkrar deilur og hafa reyndar verið um það svigrúm sem bankarnir hafa til leiðréttinga og afskrifta á lánum einstaklinga. Ég gerði því tvennt í kjölfarið. Ég óskaði fyrst eftir því við Ríkisendurskoðun að hún mundi meta það svigrúm sem væri fyrir hendi í bönkunum til að koma meira til móts við heimilin. Ríkisendurskoðun baðst undan því að fara í slíka vinnu. Þá sneri ég mér til Hagfræðistofnunar háskólans sem féllst á að meta afskriftasvigrúmið í bönkunum sem deilur hafa verið um og meta áhrifin af þeim tillögum sem Hagsmunasamtökin settu fram en þær voru fjórar eða fimm. Þetta hefur verið unnið í samráði við Hagsmunasamtökin sem meðal annars hafa rætt við Hagfræðistofnun háskólans um tillögurnar þannig að það væri alveg skýrt hvert væri viðfangsefni og verkefni Hagfræðistofnunar í álitinu sem hún mundi skila.

Ég hef spurnir af því að nú um mánaðamótin fái ég niðurstöðu Hagfræðistofnunar háskólans, ætli hún liggi ekki fyrir í næstu viku og verður þá að sjálfsögðu kynnt.