140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[19:41]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hún er mikilvæg.

Mín sjónarmið varðandi samkomulagið frá því í desember lúta fyrst og fremst að því að báðir aðilar, ríkisvaldið og síðan viðsemjendur, fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir, hafi ekki náð á þeim langa tíma sem liðinn er að ganga endanlega frá útfærslu samkomulagsins. Það var alveg ljóst í desember að menn voru að skrifa upp á að það ætti að finna leiðir til þess að tryggja að þessir aðilar, fjármálafyrirtækin annars vegar og lífeyrissjóðirnir hins vegar, kæmu að því með ríkinu að fjármagna þá aðgerð sem ég tel að hafi verið mjög mikilvæg, að finna almenna leið til að létta undir með borgurunum í landinu.

Síðan er það önnur og lengri umræða með hvaða hætti þessar aðgerðir allar hafa verið útfærðar sem lúta að því að ná niður lánastabbanum í landinu. Ég get tekið undir með þeim sem hafa gagnrýnt að þar hefur flækjustigið verið talsvert mikið og maður hefði viljað sjá hluti ganga hraðar fram en raun bar vitni. Svo verður líka að líta til þess að þarna voru margs konar samningar á ferðinni og mjög erfitt við þær aðstæður sem ríktu hér í samfélaginu eftir hrun að finna einfaldar patentlausnir á þessum mjög svo þunga vanda.