140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[19:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Hann reyndar svaraði ekki fyrri spurningu minni, þeirri er snerti skattlagningu lífeyrissjóða og vilja hv. þingmanns til að finna aðrar lausnir í þeim efnum. Ef fram heldur sem horfir mun, fyrir utan litlar hækkanir til handa öldruðum og öryrkjum, þessi skattlagning enn frekar skerða bætur og tekjur aldraðra og öryrkja, sem hv. þingmaður segir hér að hin norræna velferðarstjórn hafi staðið sig mjög vel í að standa vörð um. Það er annað en Alþýðusamband Íslands hefur sagt og birt heilsíðuauglýsingar um. Alþýðusamband Íslands hefur talað um svik ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur gagnvart öldruðum og öryrkjum og Öryrkjabandalag Íslands hefur farið mjög hörðum orðum í umsögnum um það hvernig ríkisstjórnin hefur beitt sér gagnvart öldruðum og öryrkjum. Þá er eðlilegt að við spyrjum: Fara þessi samtök rangt með eða hver hefur rétt fyrir sér í þessum efnum?