140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[20:46]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs út af þeim bandormi sem hér er til umræðu. Óhætt er að segja að verulegur viðsnúningur hafi orðið á rekstri ríkissjóðs síðan norræn velferðarstjórn vinstri og miðjumanna tók við ríkisstjórnartaumunum. Á undanförnum tveimur árum hefur orðið 140 milljarða viðsnúningur í rekstri ríkisins. Ef ekki væri fyrir vaxtakostnað væri ríkissjóður rekinn með 40 milljarða hagnaði á árinu 2012.

57% af þessu aðhaldi hafa átt sér stað í gegnum útgjöldin, um 43% í gegnum tekjurnar. Engu að síður hefur ríkisstjórninni tekist að auka útgjöld til velferðarmála samanborið við fyrri ríkisstjórnir. Skattar hafa aldrei náð því að vera jafnstór hluti af landsframleiðslu í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og þeir voru í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Á „góðæristímum“ tók ríkið stærri hluta af veltu þjóðfélagsins til sín í gegnum skatta en það gerir í dag. Það má líka fara í gegnum það að síðan ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við hefur tekjuskattur lækkað hjá 60–70% einstaklinga. Þannig höfum við reynt að létta undir með þeim sem lægstar tekjurnar hafa. Alls greiddu 85 þús. manns lægra hlutfall af tekjum sínum í skatt árið 2010 en árið 2008. Á fyrri helmingi þessa árs mældist hagvöxtur á Íslandi 2,5% sem er meiri hagvöxtur en hjá helmingi ríkja með þróað hagkerfi, þ.e. þeirra ríkja sem eru innan OECD.

Vissulega sópaði hrunið mörgum störfum frá, 13–14 þúsund, en á undanförnum missirum hefur orðið viðsnúningur á vinnumarkaði og síðustu tvö árin hefur störfum fjölgað svo nemur um 3.600, þ.e. nokkuð umfram fjölgun starfandi fólks á vinnumarkaði. Þá er atvinnuleysi síminnkandi og hefur ekki verið minna síðan í ársbyrjun 2009 og er mjög lágt í alþjóðlegum samanburði. Á Norðurlöndunum er það einungis í Noregi sem það er lægra en á Íslandi.

Björgunaraðgerðum hrunsins er þannig smátt og smátt að ljúka. Undanfarin ár hafa reynst okkur erfið og mörg okkar munu glíma við eftirköst hrunsins til einhverrar framtíðar en við erum búin með það versta og smátt og smátt er hagkerfið að taka við sér. Við sjáum það á þeim fjárlögum og þeim tekjuramma sem við ræðum hér að nú horfir til betri tíðar. Þess vegna er mikilvægt að við tölum ekki bölmóð hvert í annað heldur lítum á þau jákvæðu teikn sem eru á lofti, hagvaxtartölur, atvinnuleysi og þá viðspyrnu sem er að sjá í hagkerfinu um leið og við ræðum hvernig ríkið eigi að afla fjármuna til að standa undir velferðarkerfinu í landinu.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fjallað um bandorminn svokallaða frá ráðherra og gert nokkrar breytingar á frumvarpinu. Ég ætla að rekja nokkrar þeirra í ræðu minni, virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta ber að greina frá því að heildarjöfnuði í afkomu hins opinbera verður náð á árinu 2014 í stað 2013 en þá seinkun má rekja til aukins svigrúms í ríkisfjármálum og vilja ríkisstjórnarinnar til að styðja við hagvöxt sem nú fer ört vaxandi.

Gert er ráð fyrir að hagvöxtur næsta árs verði um 2,4%. Það kallaði á endurskoðun á tekjuáætlun frumvarpsins. Eins og áður greindi hefur ríkissjóður náð undraverðum árangri í viðsnúningi ríkisfjármála. Nýjustu tölur Hagstofu Íslands benda til þess að hagvöxtur hafi orðið 3,7% á fyrstu níu mánuðum þessa árs og 4,7% á þriðja ársfjórðungi.

En það þarf að afla tekna til að standa undir velferðinni og í forsendum fjárlagafrumvarpsins var gert ráð fyrir að auka skatttekjur um 9,7 milljarða kr. Þær ráðstafanir í tekjuöflun sem hér eru nefndar eiga að standa undir 3,7 milljörðum.

Lagðar eru til eftirtaldar aðgerðir: að auðlegðarskattur verði framlengdur til álagningarársins 2015 og að lagt verði nýtt 2% viðbótarskattþrep á eignir einstaklinga annars vegar og hjóna hins vegar yfir tiltekin mörk sem eiga að skila 1,5 milljörðum kr., að heimild til frádráttar iðgjalda frá tekjuskattsstofni vegna viðbótarlífeyrissparnaðar verði 2% í stað 4% en það á að skila 1,4 milljörðum og svo eru breytingar á kolefnisgjaldi svo eitthvað sé nefnt.

Þá eru lagðar til breytingar á krónutölusköttum til að elta verðlagsþróun svo ríkið haldi tekjum sínum. Um er að ræða heildarlækkun á tryggingagjaldi sem er jákvætt skref enda viljum við ekki sjá að skattlagning taki mið af þeirri einingu, þ.e. starfsmann á launum hjá fyrirtæki, og eru þessi áform í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við kjarasamninga síðasta vor. Hér er um að ræða lækkun á skattprósentu á afdráttarskatti, á vaxtatekjur erlendra aðila hér á landi og tóku talsmenn atvinnulífsins mjög undir þessa breytingu á fundum nefndarinnar.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á fjárhæðarmörkum skattþrepa. Í 5. tölulið ákvæðisins um tekjuskatt einstaklinga segir að þau skuli taka breytingum í upphafi hvers árs í réttu hlutfalli við hækkun launavísitölu frá upphafi til loka næstliðins tólf mánaða tímabils. Gert er ráð fyrir að launavísitalan muni breytast um 8% á þessu ári og tekur lægsta þrepið mið af þeirri breytingu og gott betur. Það mun breytast um 8,9%. Þannig er meiri hækkun neðsta þrepsins tekin út og efra þrepið minnkað minna. Engu að síður tekur það 3,5% breytingum.

Þá eru breytingar á auðlegðarskatti, aukaþrep sett inn. Vert er að hafa í huga, virðulegi forseti, að í þessum þingsal og í fjölmiðlum hefur ýmislegt verið rætt um áhrif auðlegðarskattsins. Vissulega verð ég að segja að það er aldrei fýsilegt að leggja skatta á einstaklinga og auðlegðarskattur er umdeildur og viðmiðunarmörk hans geta verið umdeild og eru allrar umræðu verðar. Hins vegar búum við við þá stöðu í ríkisfjármálum að leita þarf ofan í hverja einustu matarholu. Þess vegna er kannski ekki ósanngjarnt að leita til þeirra sem sterkastir eru fyrir. Auðlegðarskattur skilar verulegum fjármunum í ríkissjóð, um 7 milljörðum kr. Munar um minna, það eru nokkrar líknardeildir eins og einhvers staðar var sagt. (Gripið fram í.)

Það sem er mikilvægt að hafa í huga í þessu sambandi er að því hefur verið fleygt í fjölmiðlum að flótti hafi brostið á þá einstaklinga sem greiða auðlegðarskatt en samkvæmt minnisblaði fjármálaráðuneytisins sem kynnt var í nefndinni 18. nóvember höfðu á árinu 2010 einungis 31 af þeim 3.817 sem greiða auðlegðarskatt flutt af landi brott á árinu 2010 og samkvæmt þeim upplýsingum sem komu fram á fundi nefndarinnar í byrjun desember höfðu einungis 28 einstaklingar af þeim 4.500 einstaklingum sem greiða auðlegðarskatt flutt af landi brott á þessu ári, sem er lægra hlutfall en gengur og gerist almennt meðal launþega í landinu. Eins og ég sagði skilar auðlegðarskatturinn um 7 milljörðum kr. en þeir einstaklingar sem fluttu af landi brott á þessu ári greiddu 51 milljón af þeirri upphæð. Af því má sjá að það er óverulegur hluti þeirra einstaklinga sem greiða auðlegðarskatt sem flytur af landi brott og því eru þær fréttir mjög orðum auknar sem berast um að flótti sé brostinn í þennan hóp.

Þá er í frumvarpinu lagt til að frádráttarbært iðgjald vegna séreignarsparnaðar lækki tímabundið úr 4% í 2%. Forsvarsmaður frumvarpsins í nefndinni, Helgi Hjörvar, formaður og framsögumaður, rakti það í ræðu sinni að nefndin leggur til að þetta gerist hjá þeim hluta almennings sem greiðir núna viðbótariðgjald, að iðgjaldið lækki niður í 2% en það muni svo fara aftur í 4% að þremur árum liðnum þegar þessi tímabundna breyting gengur til baka. Áætlað er að þessi breyting skili ríkissjóði 1,4 milljörðum kr.

Manni verður oft hugsað til þess þegar við stóðum frammi fyrir fjárlagahalla upp á allt að 200 milljarða kr. á sínum tíma hvort ekki hefði mátt horfa til þeirrar matarholu á þeim tíma. Ef við lítum á þessar tölur í dag má kannski segja að úr sjóðum almennings, sameiginlegum sjóðum okkar, séum við að niðurgreiða sparnað hjá almenningi um 1,4 milljarða á ári. Þegar við lentum í hruninu þurftum við kannski frekar á því að halda að auka veltu í samfélaginu, við þurfum að fá fólk til að borga niður skuldir eða takast á við aðra útgjaldaliði en sparnað. Því má velta fyrir sér hvort ekki hefði mátt horfa til þessa þáttar strax þá og færa okkur rúmlega 4 milljarða kr. á þeim þremur árum sem safnast hefðu með þeim hætti.

Ég mundi að minnsta kosti vilja velta því upp hér og að því leyti tel ég þetta réttlætanlegt vegna þess að við þurfum að skoða það alvarlega hvort réttlætanlegt sé á þessu stigi málsins, við þessa stöðu, að við niðurgreiðum sparnað landsmanna með jafnskýrum hætti.

Þá var í nefndinni nokkuð rætt um fjármögnun sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu eða ígildi vaxtabóta fyrir árin 2011 og 2012 sem rædd voru í nefndinni fyrr á þessu ári. Fjármögnun þess verkefnis er upp á 6 milljarða kr. á hvoru ári og viðskiptabankarnir bera kostnað upp á 2,1 milljarð en lífeyrissjóðirnir 1,4 og restin kemur úr ríkissjóði beint. Samtök fjármálafyrirtækja ræddu það í nefndinni og styðja áform um skattlagningu lífeyrissjóða með þessum hætti með hliðsjón af jafnræði aðila og með vísun í það samkomulag sem gert var á sínum tíma og lögðu reyndar einnig til að Íbúðalánasjóður og fjármálafyrirtæki í slitameðferð væru einnig felld undir þennan skatt á fjármálafyrirtæki.

Meiri hlutinn vill árétta það, og ég tek það sérstaklega fram í ræðu minni, að í umræddu áliti okkar á sínum tíma og aftur nú kemur fram sá skilningur að lífeyrissjóðirnir taki þátt í kostnaði vegna vaxtaniðurgreiðslunnar en á sínum tíma var stjórnvöldum og lífeyrissjóðunum gefinn frestur til að ná saman um fjármögnun verkefnisins. Það samkomulag tókst ekki og þess vegna vill meiri hluti nefndarinnar árétta fyrri sjónarmið sín um að skattlagningin sé reist á málefnalegum forsendum þar sem henni er ætlað að standa undir almennri aðgerð til lausnar á skuldavanda heimila. Lífeyrissjóðirnir eiga að koma með okkur í það verkefni að hjálpa skuldugum heimilum í gegnum skaflinn og þess vegna eiga þeir af 1.800 milljarða stofni sínum að leggja til 1,4 milljarða.

Staðreyndin er nefnilega sú að stór hluti af þeim skuldavanda heimila sem glímt er við núna, á þessu stigi málsins, er til kominn vegna óábyrgra lánveitinga lífeyrissjóðanna. Það stafar af þeim lánum sjóðanna annars vegar með lánsveðum og hins vegar af lánum til sjóðfélaga þar sem þriðji aðili var notaður, var í raun og veru notandi lánsfjárhæðarinnar og í flestum tilvikum skráður sem greiðandi lánsins. Í báðum tilvikum sem ég nefni hér er að vandamenn tóku ýmist veð fyrir láninu eða tóku lánið út í eigin nafni fyrir þriðja aðila. Tilgangur þessara lána var í raun og veru að búa til eigið fé fyrir aðila sem voru þá annaðhvort að kaupa eða byggja húseign. Heildarveðsetning greiðanda var þá í flestum tilvikum þegar þau lán voru veitt afar há í hlutfalli við virði eignarinnar sem stóð á bak við.

Lífeyrissjóðirnir hafa nú staðfest að þúsundir lána séu með lánsveði á markaðnum og það er eitt helsta verkefni stjórnvalda núna að taka á vandamálum lánsveðshópsins og lífeyrissjóðirnir bera nokkra ábyrgð á stöðu þessa hóps og geta þess vegna ekki hoppað frá því samkomulagi sem gert var um að taka á vanda skuldugra heimila.

Sérstaklega ber að horfa á þann hóp sem var að kaupa í fyrsta sinn á árunum 2004–2008 og eru skuldarar eða greiðendur að lánum sem þeir nýttu sér til að búa til nauðsynlegt eigið fé, ef svo mætti segja, til að geta farið í íbúðaviðskipti. Lífeyrissjóðunum var og er fullkunnugt um hvernig var í pottinn búið hjá því fólki og þeir greiddu fyrir það að gerlegt væri að þetta fólk gæti ráðist í að kaupa eða byggja eign með því að heimila lánsveð eða lána í gegnum þriðja aðila.

Þannig má í raun segja að sjóðfélagalán lífeyrissjóðanna á þessum árum hafi verið veitt án skoðunar á tilefni, án skoðunar á veðsetningu raunverulegs greiðanda og í raun og veru án skoðunar á því hver greiðslugeta greiðanda væri og ábyrgðaraðila þegar hann var annar en eigandinn sjálfur.

Ég vil árétta það, virðulegi forseti, að ég tel að lífeyrissjóðirnir eigi að koma með okkur í þetta verkefni. Þeir eiga að koma með okkur í þetta verkefni og þeir munu græða á því til langs tíma litið að hjálpa skuldugum heimilum. Það á ekki að koma til þess að skerða þurfi lífeyrisgreiðslur þeirra sem taka út úr sjóðunum í dag. Þessu vandamáli á að ýta á undan sér vegna þess að til lengri tíma litið munu lífeyrissjóðirnir græða á því að hjálpa skuldugum heimilum í dag, fólki á aldrinum 30–40 ára sem var að kaupa sínar fyrstu eignir á árunum 2004–2008. (BJJ: Þeim fer nú fækkandi.) Það er mín pólitíska sannfæring í þessu máli, virðulegi forseti.

Mig langar að víkja að tóbaksgjaldi. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins lagði það til við nefndina að gjald á tóbak sem reiknað er eftir vigt yrði betur samræmt á tóbak heilt yfir, þannig að gjald kæmi til á neftóbak og tæki framvegis sömu breytingum og annað tóbak. Þessar hugmyndir fengu hljómgrunn í áliti meiri hluta velferðarnefndar sem lagt var fyrir nefndina og einnig sú tillaga ÁTVR að ráðast í kerfisbreytingu á smásölu tóbaks þannig að tóbak í smásölu yrði á sama verði á öllu landinu. Efnislega get ég sagt að þessi hugmynd er allrar athygli verð. Ég tel að hún eigi að fá ítarlega umræðu í velferðarnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd á ári komanda. Ég tel hins vegar ekki ráðlegt að ráðist sé í þessar breytingar hér og nú vegna þess að við þurfum að fá umsagnir og athugasemdir, skoðanir og umræður meðal hagsmunaaðila um hvernig þetta muni í raun og veru virka, hvaða áhrif þetta hefur á markaðinn. Því tel ég rétt að þessum hluta hugmyndar velferðarnefndar og ÁTVR verð ýtt aðeins fram á við og fái betri umræðu.

Þá vil ég árétta að gert er ráð fyrir því í breytingum nefndarinnar að auðlegðarskatturinn verði einungis framlengdur til ársins 2014, þ.e. út árið 2013, en að óbreyttu er gert ráð fyrir að gjaldeyrishöft falli úr gildi á sama tímapunkti, þ.e. í lok árs 2013, og telur meiri hlutinn mikilvægt að skoða þau tvö mál í samhengi og telur þau tengjast nánum böndum, þ.e. annars vegar auðlegðarskatturinn og hins vegar gjaldeyrishöftin. Þess vegna ber að skoða gildistíma hvors tveggja með sama hætti.

Þá leggjum við til að tóbaksgjald á neftóbak hækki um ¾ og verði þar með 7,21 kr. í staðinn fyrir 4,12 kr. á hvert gramm. Breytingin er gerð, eins og áður sagði, með hliðsjón af ábendingum ÁTVR og þeirra lýðheilsusjónarmiða sem gerð hefur verið grein fyrir og koma fram í umsögn meiri hluta velferðarnefndar. Að fengnum upplýsingum úr fjármálaráðuneyti er gert ráð fyrir að breytingin hækki útsöluverð á neftóbaki úr 700 kr. í 930 kr., um 30%.

Hér hefur verið nokkur umræða um stöðu lífeyris og bóta í velferðarkerfinu. Ég vil ítreka og gera það heyrumkunnugt að ef skoðað er það sem ríkisstjórnin hefur gert á þessu ári kemur í ljós að útgjöld vegna bóta almannatrygginga og atvinnuleysisbóta hafa verið aukin um rúmlega 8 milljarða kr. á þessu ári. Hækkanir urðu í byrjun júní í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnar um að lífeyrisþegar og atvinnuleitendur skyldu njóta hliðstæðra kjarabóta og samið var um á almennum vinnumarkaði í maí. Sérstaklega var horft til þeirra sem eru tekjulægstir í hópi lífeyris- og bótaþega.

Ég get nefnt nokkur atriði: 50 þús. kr. eingreiðsla og desemberuppbót, hækkun á lágmarkstryggingu þeirra sem hafa engar aðrar tekjur en bætur, þær hækka um 12 þús. kr. og eru núna 196 þús. kr. alls fyrir þann einstakling sem býr einn. Grunnatvinnuleysisbætur hækkuðu einnig um 12 þús. kr., í tæp 162 þús. kr. á mánuði. Orlofsuppbót lífeyrisþega og bensínstyrkur hækkaði og með tímabundnum aðgerðum tókst velferðarráðherra að slíta í sundur það vandamál sem tengist víxlverkunum örorkubóta frá almannatryggingum og örorkulífeyris frá lífeyrissjóðunum.

Síðustu missiri hafa stjórnvöld lagt sérstaklega áherslu á að verja stöðu þeirra tekjulægstu í hópi lífeyrisþega. Í júlí 2008 námu óskertar bætur einhleyps ellilífeyrisþega 136 þús. kr. á mánuði. Í september sama ár var innleidd framfærslutrygging sem tryggði einhleypum lífeyrisþega að lágmarki 150 þús. kr. á mánuði. Sú lágmarkstrygging lífeyris var hækkuð um 20% í janúar 2009 og fór þá í 180 þús. kr. Aftur varð hækkun 1. janúar 2010 og með hækkuninni sem tilkynnt var í júní í ár fór lágmarkstryggingin, eins og áður sagði, í 196 þús. kr. á mánuði. Þessi upphæð mun svo hækka í 203 þús. kr. þann 1. janúar og þá munu lágmarksbætur hafa hækkað um tæp 50% frá júlí 2008.

Á sama tíma hefur launavísitala hækkað um 23% miðað við áætlað verðlag árið 2012.

Það er enginn ofhaldinn af þessum bótum en vil ég draga þetta fram hér til að leggja áherslu á það að lágmarksbætur hafa hækkað verulega umfram launavísitölu á undanförnum þremur til fjórum árum. (Gripið fram í.) Sérstaklega erum við að horfa á þann hóp sem hefur það hvað verst. Elli- og örorkulífeyrisþegar eru stór hluti landsmanna, 40 þús. manns, og eru aðstæður innan hópsins mismunandi. (Gripið fram í.) Vil ég leggja á það áherslu, virðulegi forseti, að ég fái hér rými og frið til að leggja áherslu á mál mitt, enda eru það mikilvæg skilaboð sem ég ber hér fram og mikilvægt að þingmenn (Gripið fram í.) í stjórnarliði og stjórnarandstöðuliði hlýði vel á.

Margir af þessum 40 þús. manns eru ágætlega settir en stór hluti hópsins stendur verr og á erfitt með að ná endum saman. Stefna velferðarstjórnarinnar með vinstri og miðjumenn hefur verið sú að styðja sérstaklega vel við þá sem lökust hafa kjörin og verður haldið áfram á þeirri braut, enda brýnt á þeim tímum þegar minna er til skiptanna en áður að auka jöfnuð í samfélaginu.

Við sjáum að hagtölur eru að færast í rétta átt. Samkvæmt Vinnumálastofnun var 7,1% atvinnuleysi í nóvember 2011 í samanburði við 7,7% í nóvember 2010. 13,3% atvinnulausra eru í hlutastörfum. Hagvöxtur er 3,7% á fyrstu níu mánuðum ársins. Spá er um að hagvöxtur verði að meðaltali 2,5% árin 2011–2013 og er það vel yfir meðaltali Evrópu á sama tíma. Kaupmáttur hefur aukist um 3,4% síðustu tólf mánuði, launavísitala hefur hækkað um 8,9% síðustu tólf mánuði. Við sjáum að laun hækka mest hjá þeim sem minnst hafa kaupið, laun stjórnenda hafa hækkað minnst, um 9,9%, á undanförnum þremur árum en á sama tíma hafa laun hækkað mest hjá skrifstofufólki og verkafólki, um rúm 22%.

Þetta verður allt að skoða í ljósi þess að fjárlagahallinn árið 2008 var 216 milljarðar kr., 140 milljarðar árið 2009, 120 árið 2010, verður 46 milljarðar á þessu ári og er áætlaður rétt rúmir 20 milljarðar á næsta ári, 2012. Það er ótrúlegur viðsnúningur á ekki lengri tíma.

Stýrivextir eru mjög lágir miðað við hvernig þeir voru þegar velferðarstjórnin tók við. Verðbólgan sömuleiðis, og skuldatryggingarálag ríkissjóðs Íslands er um 300 stig en var um 1.300 þegar mest var. (Gripið fram í.) — Það er kannski sárt fyrir suma á að hlýða en þetta eru hins vegar hagtölurnar eins og þær líta út og mikilvægt er að hafa þær í huga þegar menn skoða tekjugrunn og fjárlög yfirleitt. Norræna velferðarstjórnin hefur staðið sig í stykkinu og gott betur.

Við jafnaðarmenn viljum ganga fram af hófsemi í skattlagningu, viljum vernda öflugt mennta- og velferðarkerfi. Við viljum bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja með afnámi tolla og lægri vöxtum en við viljum líka að fyrirtækin sem nýta auðlindir greiði auðlindaskatt. Þannig mótast stefnan af hófsemi og sanngirni í anda jafnaðarmanna.

Undanfarin ár höfum við tekið þátt í ríkisstjórn sem hefur unnið þrekvirki við endurreisn ríkissjóðs. Um 140 milljarða viðsnúningur hefur orðið í rekstri ríkisins og ef ekki væri fyrir vaxtakostnað væri ríkissjóður rekinn með 40 milljarða hagnaði á næsta ári. Við þessa aðlögun að veruleikanum höfum við gætt að áherslum jafnaðarmanna. Breytingar á tekjuskatti einstaklinga sýna vel að við höfum létt undir með þeim sem lægstu tekjurnar hafa. Tekjuskattur hefur lækkað hjá 60–70% einstaklinga að hlutfalli og 85 þús. manns greiða lægra hlutfall af tekjum sínum í skatt árið 2010 en þeir gerðu árið 2008.

Virðulegi forseti. Rannsóknir sýna að samfélög þar sem fjárhagslegur ójöfnuður er meiri eigi við erfiðari félagsleg vandamál að stríða en samfélög jöfnuðar. Svo virðist sem nær öll heilsufarsleg og félagsleg vandamál sem oftast eru algengari meðal fátækra í sérhverju samfélagi eru mun algengari í samfélögum sem einkennast af ójöfnuði. Á hinn bóginn njóta íbúar samfélaga þar sem meiri jöfnuður ríkir betri heilsu og lífslíkur þeirra eru meiri. Færri glíma við eiturlyfjavanda, ofbeldi er minna, minna er um barneignir táningsstúlkna, börnum líður betur, offita er minni, geðrænir sjúkdómar sjaldgæfari og félagslegur hreyfanleiki er meiri. Þýðingarmikið atriði varðandi öll þessi vandamál er að samheldni og samstaða tapast í samfélögum sem einkennast af ójöfnuði. Rannsóknir sýna ítrekað að þar sem tekjumunur milli ríkra og fátækra er minni eru íbúar vinsamlegri og samheldni meiri, samskipti og virkni í nærsamfélögum er meiri, fólk treystir hvert öðru betur og skólabörn eru síður lögð í einelti.

Svo virðist sem óöryggi og ójöfnuður innan samfélagsins ýti undir það viðhorf að mikilvægt sé að eiga mikla peninga og því vinnur fólk í samfélögum ójöfnuðar meira en í þeim sem einkennast af jöfnuði. Ójöfnuður eykur því álag á fjölskyldur og foreldra.

Virðulegi forseti. Ísland virðist smátt og smátt vera á leið út úr kreppunni. Hagvöxtur er vel yfir meðallagi innan Evrópu og atvinnuleysi er á undanhaldi. Og nú er mikilvægt að halda áfram á sömu braut, fjölga atvinnutækifærum og styrkja hag velferðar í landinu. En gleymum því ekki að allt byggir þetta á því að við getum byggt hér upp samfélag jöfnuðar. Eins og ég greindi frá áðan er mikilvægt að hamingja þjóðarinnar felist ekki síður í því að auka samheldni og traust á milli einstaklinganna og styðja þá sem minnst mega sín. Það lýsir sér í þeim breytingum sem við höfum gert á skattkerfinu og það lýsir sér í þeim breytingum sem við erum að gera á almannatryggingakerfinu, örorkubótum og lífeyrisbótum. (Gripið fram í.)

Þannig aukum við hamingju borgaranna en það er kannski sú hagvaxtarmæling sem mestu máli skiptir, þó að ég ætli ekki að horfa fram hjá því að hin hagvaxtarmælingin sýnir líka að við erum á réttri leið.