140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:20]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti í ræðu minni höfum við stutt mjög vel við bakið á þeim hópum sem lökustu kjörin hafa í hópi aldraðra og þeirra sem þiggja örorkubætur. Ég mundi gjarnan vilja gera miklu betur við þessa hópa og styrkja til muna velferðarkerfið í landinu á sem víðustu sviði, taka tekjutengingarnar smátt og smátt í burtu o.s.frv. En það er ekki um auðugan garð að gresja tekjumegin, það er hart í ári og ein sú alversta heimskreppa á undanförnum áratugum. (Gripið fram í.) Við sjáum fyrir okkur að við þurfum að leggjast á eitt til að afla tekna til þess að skapa störf og styrkja velferðina. Þar erum við hv. þingmaður hjartanlega sammála og hef ég margoft komið hingað upp í ræðustól og lagt áherslu á uppbyggingu ferðaþjónustu fyrir norðaustan. (Gripið fram í.)

Ég hefði alveg verið til í það á sínum tíma að fá betri stuðning úr flokki hv. þingmanns (BJJ: Nú?) við það verkefni. Það voru ekki margir þingmenn sem tóku undir þau orð þegar ég leitaði til þingmanna og við í stjórnarliðinu tókumst á um (Forseti hringir.) hvernig bæri að haga málum fyrir norðaustan hvað varðar fjárfestingu í ferðaþjónustu. (Gripið fram í.)