140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þau vöktu athygli mína orð hv. þm. Magnúsar Orra Schrams að það væri ekki tímabært að fara að þeim tillögum sem hv. velferðarnefnd lagði inn til efnahags- og viðskiptanefndar og óskaði eftir að nefndin gerði að sínum varðandi kerfisbreytingu á verðlagningu tóbaks þannig að hægt væri að selja tóbak á sama verði um land allt. Í tillögum nefndarinnar er þó tekið fyrsta skrefið varðandi verðlagningu á neftóbaki. Það er lítið skref en það er í rétta átt.

Það vakti hins vegar athygli mína þegar hv. þingmaður sagði að þetta þyrfti ítarlegri umræðu. Ég vil taka fram að málið hefur fengið mjög ítarlega umræðu í velferðarnefnd en greinilega ekki í efnahags- og viðskiptanefnd. Hv. þingmaður sagði að það vantaði umsagnir og athugasemdir og skoðanir varðandi þetta mál. Ég óska eftir því að fá upplýsingar um hvaða skoðunum (Forseti hringir.) hv. þingmaður er að leita eftir í því sambandi.