140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Breytingarnar sem gerðar hafa verið á þessu máli eru margar hverjar heldur til bóta, því að eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi meiri hlutinn vildi ekki einu sinni kannast við krógann þegar farið var að skoða málið. Það er að sjálfsögðu mjög jákvætt að falla frá kolefnisskattinum og í rauninni algjörlega nauðsynlegt. Allar þær breytingar sem eru í þá átt að draga úr hækkunum á sköttum og gjöldum eru að sjálfsögðu mjög jákvæðar af þeim ástæðum sem ég lýsti áðan. En það þarf svo sannarlega meira til ef þetta frumvarp á ekki að reynast stórskaðlegt. Því vonast ég til þess að á milli 2. og 3. umr. verði ráðist í umfangsmiklar breytingar og að stjórnarliðar hlusti ekki aðeins fulltrúa stjórnarandstöðunnar heldur líka þau álit sem berast utan úr bæ, þær viðvaranir sem ríkisstjórninni berast, m.a. frá aðilum vinnumarkaðarins um þær hættur sem í þessu felast og að hún ráðist í frekari lagfæringar.