140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður ber ástandið hér saman við hrakfarir Evrópusambandsins og segir: Getum við bara ekki vel við unað? Jú, vissulega er margt betra hér en þar, enda hafa tækifærin verið meiri. Hv. þingmaður hlýtur að fallast á það sem ég hélt fram í ræðu minni áðan, að hagvöxturinn sé til kominn fyrst og fremst vegna þess að fólk hefur verið að eyða sparnaði sínum samkvæmt tilmælum frá ríkisstjórninni, það hefur eytt sparnaðinum í neyslu.

Í öðru lagi vegna þess að íslenska krónan, sem hv. þingmaður er nú reyndar ekki hrifinn af og hún hefur vissulega sína galla, hefur aukið verulega á útflutningstekjur Íslendinga.

Í þriðja lagi vegna þess að makrílveiðar hafa verið töluverð búbót fyrir Íslendinga.

Hvað varðar ummæli hv. þingmanns um að hrakspár framsóknarmanna og svartsýni hafi ekki gengið eftir hefur því miður allt of margt af því sem við höfum bent á og varað við ræst, eins og ég rakti í ræðu minni áðan. Hins vegar er staðan í ríkisfjármálum mun miklum mun skárri en hún væri ef ríkisstjórnin hefði náð í gegn áformum sínum um að leggja mörg hundruð milljarða kr. ábyrgðir á íslenska skattgreiðendur af skuldum gjaldþrota fyrirtækis — mörg hundruð milljarða kr. ábyrgðir. Þá væri staða ríkisins örugglega allt önnur og miklu verri.

Hrakspárnar um hvað mundi gerast ef menn tækju ekki á sig allar þær kröfur reyndust gjörsamlega innihaldslausar. Þvert á móti, eins og bent var á, þýða minni skuldir lægra skuldatryggingarálag, betri lánskjör ríkisins og betri stöðu og möguleika á að takast á við vandamálin. Stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið skaðleg en henni hefur verið forðað frá því að gera enn (Forseti hringir.) stærri mistök.