140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:56]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðuna. Það veitir svo sannarlega ekki af að blása landsmönnum einhverja von í brjóst og ræða hans var uppfull af jákvæðum skilaboðum og bjartsýnn tónn í henni að stærstum hluta. Ég er alveg viss um að þeir fjölmörgu sem kunna að vera að hlusta eða horfa á beina útsendingu frá þinginu hafa lyfst upp úr sætum sínum við ræðu þingmannsins og þá framtíðarsýn sem hann teiknaði upp fyrir þjóðina. Langt er síðan maður hefur heyrt hv. þingmann slá á jafnjákvæða strengi um framtíð þessarar þjóðar og þeirrar stöðu sem við erum í og á hann þakkir skildar fyrir það.

Hv. þingmaður nefndi nokkur mál sem gaman væri að ræða, þar á meðal lífeyrisskuldbindingar. Ég get verið nokkuð sammála honum um það mál. Við höfum fjallað um það í fjárlaganefnd, þ.e. lífeyrisskuldbindingar og þá sérstaklega Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hv. þingmaður bendir réttilega á alvarlega skekkju sem þar er en hún er ekkert að myndast í dag. Þessi skekkja hefur verið að myndast allt frá árinu 2000 þar sem skuldbindingar sjóðsins hafa verið neikvæðar. Sjóðurinn hefur ekki getað staðið við skuldbindingar sínar neitt einasta ár frá árinu 2000. Á hverju einasta ári, 2000, 2001, 2002, 2003, 2004, 2005, 2006, 2007, 2008, 2009, 2010 og 2011, hefur það verið þannig og aldrei verið gripið til aðgerða, aldrei nokkurn tíma, eins og hv. þingmaður veit. Aldrei var gripið til aðgerða til að laga þessa skekkju á þeim tíma sem var kannski mögulegt að gera það, upp úr 2000 og fyrstu árin þar á eftir. Það var aldrei nokkurn tíma gert og þess vegna erum við í þeim vanda sem við erum með Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins í dag (Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður lýsti svo vandlega hér áðan.