140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:10]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um stefnu um beina erlenda fjárfestingu. Þetta mun vera fyrsta plagg sinnar tegundar sem litið hefur dagsins ljós á hinu háa Alþingi.

Ljóst er að fjárfesting og uppbygging eru að sjálfsögðu mikilvægir þættir í efnahagsþróun okkar, ekki síst nú eins og aðstæður hafa verið eftir efnahagshrunið sem hér varð árið 2008. Erlendar fjárfestingar á Íslandi verið litlar í gegnum tíðina fyrir utan einstakar stórfjárfestingar sem yfirleitt hafa verið tengdar orkufrekum iðnaði. Á köflum hafa menn talið að það ætti m.a. rót sína að rekja til þess að umgjörð og regluverk um erlenda fjárfestingu væri ekki hafið yfir gagnrýni og/eða að hér væri ekki það aðlaðandi umhverfi sem þyrfti að vera til að laða að áhuga erlendra fjárfesta. Þá má og geta þess að Ísland er að sjálfsögðu lítill og afskekktur markaður og stærðir hér á köflum það litlar að þær kveikja kannski ekki mikinn áhuga stærri erlendra fjárfesta. Það kynni nú ekki að vera fullt eins mikið skýringin á því að áhugi hefur verið takmarkaður á almennri og minni fjárfestingartækifærum hér. Það eru helst nágrannaþjóðirnar, Danir eða aðrir slíkir, sem hafa á köflum sýnt slíku áhuga á grundvelli þekkingar sinnar á íslensku viðskiptalífi af sögulegum ástæðum. En Ísland hefur að því er virðist verið fulllítið til að komast oft á kortið hvað varðar almennan áhuga ef horft er fram hjá þeim stóru einstöku fjárfestingum sem endurnýjanlegur orkuforði Íslands hefur yfirleitt dregið að landi.

Þá má að sjálfsögðu líka velta því fyrir sér hvort skortur á skýrri stefnumótun af hálfu stjórnvalda geti skýrt það að einhverju leyti, það hefur ekki verið þannig að hér hafi verið byggt á mótaðri stefnu um rammann um þessar fjárfestingar. Þessi þingsályktunartillaga felur þá í sér tilraun til úrbóta þar á.

Reynslan hefur kennt okkur að það er tvíbent, svo vægt sé til orða tekið, að byggja upp efnahagslífið fyrst og fremst á skuldsetningu og lántökum. Beinar fjárfestingar, innlendar sem erlendar, eru þar af leiðandi mjög æskilegar í bland við það sem eðlilegt og sjálfsagt er að fyrirtæki byggi að einhverju leyti fjárfestingar sínar á hófsamlegri lántöku. Bein erlend fjárfesting skapar að sjálfsögðu störf og færir verðmæti inn í þjóðarbúið. Hún getur aukið fjölbreytni í atvinnulífinu og hlúð að nýbreytni ef vel er á málum haldið. Þess vegna er eðlilegt að horfa til þessa þáttar sem eins af mörgu sem við þurfum nú að hyggja að í sambandi við hagstæða hagþróun og efnahagsþróun hér á landi á komandi missirum og árum.

Það er rétt að hafa í huga að í gildi eru ýmsar takmarkanir á erlendri fjárfestingu. Þær eru þó viðaminni en oft mætti ætla af umræðunni. Þær snúa fyrst og fremst að eignarhaldi í sjávarútvegi og nokkrum takmörkunum í viðbót sem varða aðila utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þær geta að sjálfsögðu líka tengst stefnu stjórnvalda. Við getum tekið það sem dæmi að það er stefna núverandi ríkisstjórnar að ekki skuli hróflað við opinberu eignarhaldi á stórum orkufyrirtækjum sem eru í almannaeigu og sömuleiðis boðar þessi tillaga ekki neinar breytingar á grundvallarfyrirkomulagi opinberrar þjónustu sem er í opinberum höndum.

Umræða um þessi mál hefur á köflum verið óskýr og jafnvel misvísandi. Þess vegna er mikilvægt að Alþingi ræði með opnum hætti um málið og veiti eftir atvikum skýra leiðsögn um þau viðmið sem hér eigi að leggja til grundvallar afstöðu og stefnu íslenskra stjórnvalda hvað varðar erlendar fjárfestingar. Í því getur meðal annars falist að menn vilji endurmeta löggjöf á þessu sviði og fleira í þeim dúr. Smáríkjum er það mikilvægt, sjálfsagt stórum líka, að hafa skýrar áherslur í þessum efnum, þar á meðal hvað varðar beinar erlendar fjárfestingar. Þau þurfa að sjálfsögðu að vera þátttakendur í því og geta búið þeim sem sjá tækifæri í fjárfestingum það umhverfi sem til þarf, en um leið að gæta fóta sinna í þessu efni eins og öllum öðrum. Afar mikilvægt er að slík stefnumótun eða viðleitni af hálfu stjórnvalda miði að því að laða fram þá þróun og þá tegund fjárfestingar sem við teljum að okkur gagnist og gildir um atvinnuuppbyggingu óháð því hvort þeir sem að henni standa eru innlendir eða erlendir aðilar. Mikilvægt er að það sé framtíðarsýn sem taki til langs tíma og við byggjum upp orðspor okkar á grundvelli markmiða og skýrrar stefnu í þessum efnum. Löggjöf og regluverk þurfa að vera skýr og traust og þarf að sjálfsögðu að varast að sú tilfinning vakni að tekist sé á við mál af þessu tagi með ómálefnalegum eða handahófskenndum hætti.

Núverandi ríkisstjórn hefur að sjálfsögðu haft þessi mál á dagskrá og um þau má lesa í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna. Það tengist líka áætlunum um uppbyggingu undir kjörorðunum Ísland 20/20. Sömuleiðis má nefna fjárfestingu í umhverfisvænum og grænum atvinnukostum á grundvelli sjálfbærrar orkunýtingar og þau leiðarljós sem við höfum haft hvað varðar mikilvægi þess að auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs, að stuðla að verndun á nýtingu umhverfis á sjálfbærum grunni, að nýta nýjustu tækni og fleira mætti nefna í þeim dúr.

Tillögugreinin sjálf, þar sem þetta er rakið ágætlega, er tiltölulega skýr og dregur upp þær áherslur sem við, núverandi ríkisstjórn, sem að tillögunni stöndum teljum að séu þær sem við eigum einkum að hafa í heiðri í þessum efnum. Er það rakið þar í átta tölusettum liðum þar sem það helsta kemur við sögu sem mikilvægt er að hafa í huga í þessum efnum.

Að sjálfsögðu hafa fjárfestingar og mikilvægi þess að ná hjólum atvinnulífsins betur í gang verið mikið til umræðu í íslensku samfélagi af skiljanlegum ástæðum frá því að hér gengu í garð miklir erfiðleikar á árinu 2008. Umræður um þetta hafa tengst gerð kjarasamninga og er ljóst hvert hugur stefnir í þeim efnum, þ.e. að ná hér fjárfestingum og uppbyggingu í atvinnulífinu betur í gang. Þó að vissulega horfi nú til betri vegar í þeim efnum þar sem atvinnuvegafjárfesting fer vaxandi á nýjan leik mundi auðvitað fátt hlúa betur að efnahagsbatanum og treysta hann í sessi en að meiri skriður kæmist á almenna atvinnuvegafjárfestingu í bland beina erlenda fjárfestingu í þeim tækifærum sem eru svo sannarlega til staðar. Við núverandi aðstæður þarf kannski að hafa nokkuð fyrir því að laða þær að eftir þann orðsporsskaða sem landið varð fyrir í kjölfar hrunsins haustið 2008 í ljósi þeirrar staðreyndar að takmarkanir eru á fjármagnshreyfingum til og frá landinu. Hér erum við enn að vinna okkur út úr miklum erfiðleikum sem gengið hafa yfir.

Það er að mínu mati tvímælalaust áhugavert viðfangsefni sem ég geri ráð fyrir að hv. Alþingi fagni að fást við, þ.e. að ræða um áherslur í þessum efnum og taka í fyrsta sinn fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnumótun á þessu sviði. Það á að sjálfsögðu ekki að vera neitt viðkvæmnis- eða feimnismál að ræða um áherslur okkar í þessum efnum þó að auðvitað kunni ýmis sjónarmið að vera tengd þessu máli, sérstaklega hvar menn draga mörkin gagnvart því í hvaða farveg við erum sátt við að beina slíkum fjárfestingum. Almennt held ég að menn fagni því þegar um er að ræða fjárfestingar almennt í atvinnulífi, iðnaði og öðrum slíkum tækifærum og gera ekki greinarmun á hvort þar er um innlenda eða erlenda aðila að ræða, enda höfum við lengi verið samningsbundin um að gera ekki greinarmun á slíkum aðilum ef þeir eru innan Evrópska efnahagssvæðisins. En meiri viðkvæmni er fyrir hendi þegar fjárfestingarnar færast nær undirstöðuauðlindum þjóðarinnar og öðrum hlutum sem eru miðlægari í innviðum samfélags okkar og grundvallarstarfsemi sem við viljum tryggja sem sjálfstæð þjóð og er eðlilegt að farið sé yfir það allt saman. Til þess þarf stefnu og til þess þarf umræður.

Því má svo bæta við að gert er ráð fyrir því í tillögunni að framvegis leggi efnahags- og viðskiptaráðherra og iðnaðarráðherra fram tímasettar áætlanir um aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu Íslands og eftir atvikum að efla markaðs- og kynningarstarf í því skyni að mótaðar verði tillögur um samhæfða stjórnsýslu til að styðja við þessi ofangreindu markmið.

Það tengist að sjálfsögðu mótun atvinnu- og efnahagsstefnu og áætlanagerð til næstu ára og er mikilvægt að öll þessi mál verði höfð til hliðsjónar og umfjöllunar bæði í atvinnuveganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis sem eðli málsins samkvæmt þyrftu að vinna saman að þessu viðfangsefni.

Ég mælist til þess, frú forseti, að að lokinni umræðu um tillöguna verði henni vísað til síðari umræðu og hv. efnahags- og viðskiptanefndar, en ég endurtek og legg áherslu á að mikilvægt er að atvinnuveganefnd fjalli einnig um málið.