140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert sem fram kom hjá hæstv. utanríkisráðherra, sem liggur þó í augum uppi, að Alþingi hefur vald til að fella tillöguna ef það svo kýs. Það sagði hæstv. ráðherra hér áðan og þá vísa ég í orðaskipti hæstv. innanríkisráðherra við hv. þm Ásmund Einar Daðason áðan sem lýstu sér í því að — við skulum segja að innanríkisráðherra virðist ekki jafnspenntur fyrir þessum styrkjum og hæstv. utanríkisráðherra þannig að við getum ekki útilokað að þetta verði fellt á Alþingi.

Nú þegar er búið að samþykkja fjárveitingar í fjárlögum yfirstandandi árs, væntanlega byrjað að ráðstafa þeim peningum. Hvað gerist ef Alþingi fellir þessa tillögu? Munu styrkirnir hætta að berast? Alþingi væri með því væntanlega að segja að við vildum ekki þessa styrki. Ég bið hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) að spekúlera aðeins með mér í því hvað gerist ef Alþingi fellir þetta.