140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:34]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður vék að var þessi umsókn send en hún er líka skilyrt. Samninganefndin, sem er í þessu ferli, er með skilyrt umboð, þ.e. ef ekki verði fram haldið öðruvísi en að þurfa að víkja frá þeim meginhagsmunum og meginskilyrðum sem sett eru í þingsályktunartillögunni ber að fara með málið aftur inn til þingsins. Þegar menn hafa verið að halda því fram að það sé skilyrt að ljúka samningum þá er það ekki rétt, hvað sem mönnum svo finnst um það.

Ég tel eðlilegt að sú nefnd sem fjallar um þessi mál af hálfu þingsins fari mjög vandlega yfir það hvort þessi þingsályktunartillaga, og það sem henni er ætlað að uppfylla eða formgera, sé í samræmi við þá greinargerð sem fylgdi með þingsályktunartillögunni um að senda inn umsókn. Ég tel það mjög mikilvægt þó að það hafi síðan ekki áhrif á afstöðu mína til málsins, en ég tel að það sé þingleg krafa að því verði fylgt mjög vandlega eftir.