140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fjárveitingin í fjárlögunum er byggð á samningi sem enn er ekki komin heimild fyrir af hálfu Alþingis þannig að áhættan fyrir íslenska skattgreiðendur er sú að samningurinn verði felldur og að þeir sitji uppi með þann kostnað sem af honum leiðir. Þess vegna er það rökrétt spurning af minni hálfu að inna hæstv. utanríkisráðherra eftir því hvort þetta hefði ekki verið hyggilegra.

Mér láðist að nefna það í ræðu minni en ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort fjármögnun nýopnaðrar Evrópustofu byggist á IPA-styrkjum eða hvort hún komi af sérstakri fjárveitingu. Er heimild fyrir þeirri fjárveitingu eða þarf samning þar um? Gæti hæstv. utanríkisráðherra aðeins rakið það fyrir mér?