140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, hæstv. utanríkisráðherra þverskallast við. Hann þverskallast við því að opna augun yfir ástandinu í Evrópu, yfir ástandi evrunnar. Þetta skal keyrt áfram á meðan heimilin og fyrirtækin brenna upp á Íslandi. 60 þúsund fjölskyldur geta ekki staðið í skilum með íbúðalán sín en samt á þetta að vera forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar, áfram skal keyrð þessi ESB-vegferð.

Hæstv. utanríkisráðherra vísaði í að Króatía hefði haft lítinn áhuga á Evrópusambandinu fyrir tveimur eða þremur árum. Ég vil benda hæstv. utanríkisráðherra á að allir stjórnmálaflokkar Króatíu höfðu aðild á stefnuskrá sinni. Það var því ekki nema von að þeir mundu samþykkja það að ganga í Evrópusambandið í gær þrátt fyrir það að mikill minni hluti þjóðarinnar mætti á kjörstað og segði álit sitt.

Hér keyrir Samfylkingin ein þessa umsókn. Ég treysti íslensku þjóðinni og ég vil að hún fái núna að greiða (Forseti hringir.) atkvæði um það hvort halda eigi þessari samfylkingarvegferð áfram eða ekki. Allt of miklir peningar og orka (Forseti hringir.) fara í þetta ferli. Íslenska þjóðin á betra skilið.