140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[17:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB. Frumvarpið er lagt fram í tilefni af áformaðri staðfestingu Alþingis á samningi milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Samningur þessi fjallar um þær reglur er gilda varðandi fjárhagsaðstoð ESB við Ísland vegna stuðningsaðgerða þess sjóðs er fjármagnar aðstoð við ríki sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu. Samningurinn er í daglegu tali nefndur „IPA-samningur“.

Rammasamningurinn milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins skiptist í fimm kafla en í þessu lagafrumvarpi er eingöngu fjallað um þær sérreglur sem setja þarf með lögum vegna ákvæða samningsins sem fjalla beinlínis um skatta og gjöld. Er þar fyrst og fremst átt við 11. og 12. gr. samningsins. Í samningnum er gerð krafa um að aðstoðin renni óskipt til þeirra verkefna sem henni er ætlað að styðja. Af því leiðir að styrkjunum er ekki ætlað að renna til greiðslu skatta, tolla eða annarra gjalda af sambærilegum toga. Nánar tiltekið varða þessi ákvæði þá aðila, hvort heldur er einstaklinga eða lögaðila, sem samið er við um að veita þjónustu, framkvæma verk eða útvega búnað eða annan varning sem greitt er fyrir með IPA-aðstoð. Í samningnum og lagafrumvarpinu eru þessir aðilar nefndir ESB-verktakar.

Í frumvarpinu er á þessum grundvelli lagt til að eftirtaldar undanþágur frá lögum um skatta og gjöld gildi um ESB-verktaka og þá samninga sem gerðir eru á þessum grundvelli og nefnast ESB-samningar:

Að allur innflutningur á vörum á grundvelli IPA-aðstoðar skuli undanþeginn aðflutningsgjöldum, þar með talið virðisaukaskatti.

Að öll framkvæmd verks, sala vöru eða veiting þjónustu á grundvelli slíkra samninga sé undanþegin virðisaukaskatti.

Þá skulu þeir einstaklingar sem ekki eru búsettir hér á landi en samið er við um að veita þjónustu eða vinnu sem fjármögnuð er af ESB ekki greiða tekjuskatt og útsvar af starfi sem unnið er á grundvelli slíks samnings. Sama á við um lögaðila sem ekki hafa staðfestu hér á landi. Rétt er að árétta sérstaklega að undanþága þessi á ekki við um vinnu eða þjónustu einstaklinga og lögaðila sem búsettir eru hér á landi eða hafa hér staðfestu.

Persónulegir munir og búslóð nánustu fjölskyldu einstaklinga búsettra erlendis sem ráðnir eru á grundvelli IPA-aðstoðar skulu við innflutning undanþegin aðflutningsgjöldum enda séu vörurnar fluttar út aftur að verki loknu eða þær eyðilagðar.

Loks skulu þeir samningar sem fjármagnaðir eru með ESB-samningi vera undanþegnir stimplun og stimpilgjaldi samkvæmt lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.