140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 147/2009 um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

571. mál
[13:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég leyfi mér með þessari þingsályktunartillögu að leita heimildar Alþingis til þess að staðfest ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 147/2009, um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn sem fjallar um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna, og jafnframt að fella inn í samninginn tilskipun ráðsins nr. 2004/ 113/EB. Hún fjallar um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu.

Í þessari tilskipun, 2004/113/EB, eru settar reglur og tilgangur þeirra er að koma í veg fyrir að það verði mismunun á grundvelli kynferðis þegar kemur að viðskiptum með vöru og þjónustu. Það eru þó ákveðnar undantekningar í tilskipuninni frá þessari meginreglu. Þannig er heimilt að beita hagstæðari ákvæðum sem lúta að vernd kvenna, einkum með tilliti til meðgöngu og fæðingar. Þá útilokar tilskipunin ekki heldur mismunun ef lögmæt markmið réttlæta að vörur og þjónusta séu eingöngu eða aðallega veitt einstaklingum af öðru kyninu og aðferðirnar til þess að ná þessu markmiði séu bæði viðeigandi og nauðsynlegar. Þá kveður þessi tilskipunin líka sérstaklega á um þá meginreglu að tryggja skuli að notkun kynferðis sem stuðuls í útreikningum á iðgjaldi og bótum í tryggingastarfsemi og skyldri fjármálaþjónustu leiði ekki til mismunandi iðgjalda og bóta fyrir einstaklinga.

Innleiðing þessarar tilskipunar kallar á lagabreytingar hér á landi og upplýsi ég því hv. Alþingi um að hæstv. velferðarráðherra hyggst leggja fram lagafrumvarp á næsta löggjafarþingi til að innleiða þessa aðlögun og það sem í henni felst. Innleiðingin mun hafa í för með sér breytingar á lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá verður sömuleiðis skoðað hvort breyta þurfi lögum sem eru nr. 30/2004, og fjalla um vátryggingarsamninga. Velferðarráðuneytið mun líka vinna að innleiðingunni í nánu samstarfi við efnahags- og viðskiptaráðuneytið og Jafnréttisstofu. Ef innleiðingin leiðir til breytinga á lögum um vátryggingarsamninga verður líka haft samráð við Fjármálaeftirlitið og starfandi tryggingafélög á markaði.

Ég legg þá til, herra forseti, að þegar þessari umræðu er lokið, þegar áhugasamir hv. þingmenn sem hafa hug á því að fjalla um hana af mikilli þekkingu og áhuga hafa gert það, verði henni vísað til hv. utanríkismálanefndar.