140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

staða Íslands innan Schengen.

[13:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra út í Schengen-samstarfið sem við Íslendingar erum aðilar að, en það er samstarf ríkja í Evrópu. Að vísu eru Bretland og Írland ekki aðilar að því samstarfi en Schengen hefur verið gagnrýnt mjög, bæði hér á landi upp á síðkastið og eins hefur forseti Frakklands gefið það í skyn að Frakkar eigi að segja sig frá samstarfinu vegna þeirra vandamála sem af því hljótast.

Þegar Íslendingar gerðust aðilar að Schengen var Schengen-svæðið ekki orðið jafnstórt og það er í dag. Stofnríki Schengen-samstarfsins á sínum tíma voru einungis Belgía, Frakkland, Holland, Lúxemborg og Þýskaland, sem réttlætir kannski þá hugmynd að fólk gæti flakkað á milli þessara landa án vegabréfa, enda löndin öll samliggjandi og tengd að því leyti.

Þegar við gengum inn í Schengen-samstarfið var ekki hróflað við reglum um leyfi til dvalar og atvinnu í Schengen-ríkjum og það breytti í raun engu um tolleftirlit í Keflavík og annað tolleftirlit hér á landi, þannig að þá er sá þáttur farinn út. Þátturinn sem eftir stendur er vegabréfaeftirlit á innra svæðinu gagnvart þeim sem koma af ytra svæðinu og er í raun alveg sama hvar einstaklingur kemur inn á innri landamæri Schengen; þar fær hann vegabréfsáritun og svo er hann frjáls ferða sinna innan Schengen.

Hinn þátturinn er hinn mikilvægi samningur varðandi lögregluna og samninga sem gilda um alþjóðlega glæpastarfsemi. Mig langar því að spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Er ekki orðið tímabært að framkvæmdarvaldið á Íslandi taki undir með skoðunum hátt settra embættismanna innan lögreglunnar á Íslandi um að viðhalda lögreglusamningnum innan Schengen-samstarfsins og taka þann þátt út er lýtur að vegabréfaskoðun og að við sem sjálfstætt ríki, eyja í Norðurhafi, tökum upp okkar eigið landamæraeftirlit eins og frændur okkar Írar og Englendingar gerðu á sínum tíma?