140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[15:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Því er einfaldlega til að svara: Nei, umhverfis- og samgöngunefnd fór ekki yfir þessi frumgögn. Eins og komið hefur fram tókum við hins vegar mið af þeim upplýsingum sem fyrir liggja og sem fram hafa komið um væntanlegan ávinning eða sparnað sem af þessu getur hlotist.

Ég vil þá einnig vekja athygli hv. þingmanns á því að það er rétt hjá honum að við kölluðum ekki til marga gesti vegna þess að fyrri samgöngunefnd hafði farið svo ítarlega yfir málið og allar þær umsagnir lágu fyrir. Við fórum yfir þær og þingmenn sem voru í þeirri fyrri samgöngunefnd og skrifuðu undir álit á sínum tíma eru einmitt líka í meiri hluta í þeirri umhverfis- og samgöngunefnd sem nú var að afgreiða málið. (VigH: Jafnvitlaust.) Það voru þau hv. þingmenn Mörður Árnason, Ólína Þorvarðardóttir, sú sem hér stendur og svo hafa hv. þingmenn Róbert Marshall, Atli Gíslason og Þuríður Backman bæst við. Þannig að nei, ekki frekar en fyrri samgöngunefnd fórum við ekki í gegnum þessi frumgögn eða undirgögn. Án efa er hægt að gagnrýna okkur fyrir það en við verðum líka, eins og hv. þingmaður veit og gert er í mörgum tilvikum, að treysta þeirri vinnu sem fram hefur farið í þessum efnum og ætlast til að hún nái fram að ganga.