140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[15:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þm. Róberts Marshalls skal á það minnt að innan tíðar sest framsóknarmaður í innanríkisráðuneytið, en ekki er þar með sagt að við munum fylgja því skipulagi sem er í frumvarpinu, einfaldlega vegna þess að þetta sýnir fyrst og fremst hver ræður í samgöngumálunum. Það eru ekki endilega hinir pólitísku flokkar, heldur langtum frekar embættismenn í ráðuneytinu vegna þess að ríkisstjórnarskipti hafa verið mjög tíð. Þingmaðurinn talaði hér um að nú sæti vinstri grænn í ráðuneytinu, áður hefði það verið samfylkingarráðherra — dugði bara í tvö ár vegna þess að Samfylkingin hafði ekki betri tök á stjórn landsins en það, og þar áður sjálfstæðismaður. Þannig að svona rök, frú forseti, eiga ekki við neitt að styðjast.

En þetta er nú einmitt viðkvæmt hjá Samfylkingunni vegna þess að hér erum við komin með enn eitt kratafrumvarpið inn á borð hjá okkur þar sem hreinlega er verið að kratavæða ríkisstofnanir að óþörfu. Hér er verið að skera niður best reknu ríkisstofnunina, sem er Siglingastofnun, skera hana niður við trog og setja inn í aðrar stofnanir. Ég nefni Vegagerðina sem dæmi, það er ekki vel rekin stofnun, frú forseti, og hér er verið að styrkja hana með bestu bitunum úr Siglingastofnun.

Ég veit ekki alveg á hvaða braut framkvæmdarvaldið er, en þetta er svo mikil vitleysa. Það er líka fáheyrt að í greinargerð með frumvarpinu, fylgiskjali frá fjármálaráðuneytinu, er hvergi minnst á hvort þetta sé hagkvæmt eður ei. Hér er verið að vísa í gamlar tölur eins og farið hefur verið yfir í ræðum. Svo er mesta vitleysan í þessu frumvarpi að frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er vísað í annað frumvarp sem er hér á dagskránni og er ekki orðið að lögum. Eins og segir í niðurlagi frumvarpsins á bls. 22:

„Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála og er að öðru leyti vísað til umsagnar um það frumvarp.“

Hér þurfum við þingmenn að vera að blaða á milli frumvarpa til að komast að því hver endanlegur kostnaður við umræddar breytingar er. Þetta eru vinnubrögð, frú forseti, sem ég hef verið að gagnrýna frá því ég tók sæti á Alþingi, hversu illa unnin málin koma hingað inn í þingið. Það er ólíðandi hvernig haldið er á málum og sérstaklega í ljósi þess þegar hinar raunverulegu upplýsingar, sem liggja að baki málunum, liggja ekki fyrir í frumvarpsformi. Það dugar mér ekki að þetta hafi verið rætt nánast óbreytt á síðasta þingi og þarsíðasta þingi. Það dugar mér ekki að sjálfstæðismaður, samfylkingarmaður og vinstri grænn hafi verið ráðherra þegar þær umræður áttu sér stað. Ég vil fá rökin fram í þessu máli sem og öðrum. Ég vil fá nákvæma kostnaðargreiningu fram. Ég vil sjá rökin fyrir hinum ímyndaða sparnaði sem á að eiga sér stað. Það kom fram í máli hv. þm. Róberts Marshalls hér áðan — sem er nú fyrrverandi starfsmaður í samgöngumálaráðuneytinu, mig minnir að hann hafi verið aðstoðarmaður samgöngumálaráðherra á sínum tíma — að vel gæti verið að mikill kostnaðarauki yrði í upphafi, en með tíð og tíma kæmi sparnaðurinn í ljós.

Þetta eru rökin, frú forseti, fyrir nánast öllum þeim frumvörpum sem eru afgreidd í þinginu og hvergi fylgir kostnaðargreining. Svo er sagt: Í framtíðinni sparast peningar. Allar þessar ríkisstofnanir, sem starfræktar eru samkvæmt lögum, eru mjög mannmargar. Eins og Samfylkingin og Vinstri grænir hafa haldið á málum eru einu störfin sem skapast innan ríkisapparatsins, en sem betur fer er samkvæmt lögum einungis eitt ár í kosningar og ég bið um það á hverjum degi að sá tími verði enn styttri. Við þurfum kosningar sem fyrst til að stoppa alla þá vitleysu sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir.

Út af fyrir sig er mér annt um Siglingastofnun sem stofnun. Þetta er ríkisstofnun til fyrirmyndar, hún er kannski of góð til að vera til að mati framkvæmdarvaldsins. Hún er rekin innan fjárhagsramma og hefur staðið að mörgum nýsköpunarverkefnum. Ég vil til dæmis nefna tilraunir með repjurækt. Hvað verður um það tilraunaverkefni? Þingið var að samþykkja hér áðan þingsályktunartillögu um grænt hagkerfi. Hvert á umsjón með því verkefni að fara? Ég vil minna á að Siglingastofnun hefur verið mjög virk í því að stunda rannsóknir á norðurslóðum, fylgjast þar með mengun og bráðnun íss og annað. Hvert fara þau verkefni? Ekki er upplýst um það í frumvarpinu. Ég vil því benda hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, á að þetta eru líklega þeir ásar, kóngar og drottningar, norðurslóðaverkefnin sem Siglingastofnun hefur stundað rannsóknir á, sem hæstv. utanríkisráðherra ætlar að eiga upp í jakkaermi sinni þegar samið verður við Evrópusambandið.

Ráðherrann er hér í húsi, hann situr hér í hliðarsal. Það væri mjög æskilegt að hann gæti svarað þeirri spurningu sem ég hef fram að færa í andsvari hér á eftir. Þarna er um gríðarlega hagsmuni að ræða, málefni sem eru skilin eftir í lausu lofti og ekki er gerð grein fyrir í frumvarpinu. Einhver hluti Siglingastofnunar fer undir Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytið, en annað er skilið eftir í tómarúmi.

Þetta er það sem mér finnst skipta mestu máli í þessu varðandi málaflokkana, hvað um þá verður og hvernig á að nota þá í framtíðinni þjóðinni til hagsbóta. Eins og flestir vita er ég mikill talsmaður sjálfstæðis okkar á norðurslóðum og stofnunin hefur skýra framtíðarsýn um það hvernig þeim málum skuli hagað. Ég get ekki hugsað mér að sú þekking verði ekki nýtt eða að henni verði fórnað á altari ESB-umsóknarinnar sem skiptimynt. Það má ekki gerast, frú forseti.

Mig langar líka að benda á hlutverk Siglingastofnunar. Hún sér um að vinna að öryggi og aukinni velferð sjófarenda. Siglingastofnun vinnur að hagkvæmnissiglingum, sjávarútvegi og samgöngum. Siglingastofnun rekur öflugustu upplýsinga- og leiðsöguþjónustu í Norður-Atlantshafi. Siglingastofnun starfar sem viðurkennd þekkingar- og rannsóknarmiðstöð á sviði siglinga og hafnarmála. Þetta eru engin smáverkefni sem stofnuninni eru falin. Nú er verið að ráðast á þetta og, frú forseti, það er ekki tilviljun að þessi skref skuli vera stigin nú.

Hverjum er það til hagsbóta að leggja niður þessa stofnun? Hvers vegna er verið að veikja þennan mikilvæga hlekk okkar á norðurslóð? Jú, ég hef komið að því hér í ræðu minni. Fyrir liggur umsókn Íslands að Evrópusambandinu og fyrst þarf að brjóta niður og síðan að byggja upp á nýjum grunni.

Ég veit að hæstv. innanríkisráðherra er mjög andvígur aðild okkar að Evrópusambandinu og telur að hag Íslands sé betur borgið fyrir utan sambandið, en ég er ekki viss um að ráðherrann hafi áttað sig á því hvað þetta þýðir í raun og veru. Eins og venjulega eru þau frumvörp sem fram koma, og snerta þær breytingar sem Evrópusambandið krefst af okkur varðandi þá umsókn, mjög sakleysisleg og hvergi er minnst á það í greinargerð að um þá kröfu sé að ræða, en inn á milli línanna má alltaf finna þessar ástæður sem liggja að baki.

Meginmarkmið Siglingastofnunar er líka að veita viðskiptavinum öfluga og fyrsta flokks þjónustu og hafa á að skipa ánægðu og vel menntuðu starfsliði, byggja reksturinn á góðri nýtingu fjárheimilda, öflugri áætlunargerð og eftirfylgni og að innra starf stofnunarinnar sé skilvirkt. Þessu hefur stofnunin sinnt og er framúrskarandi að því leyti. Það er því einkennilegt að ráðist skuli vera með þessum hætti á bestu stofnunina sem hér um ræðir, því verið er að sameina nokkrar stofnanir í stórt kratabatterí sem skipta á í tvennt, í stjórnsýslu annars vegar og rekstur hins vegar.

Mér er sagt að upphaflega hafi hugmyndin verið góð, en svo hafi komið svo miklar breytingar fram í frumvarpinu á þeim árum sem þetta hefur verið til umræðu að málið hafi tekið á sig aðrar og skrýtnari myndir sem endurspeglast í þessu frumvarpi. Mér er til dæmis sagt að fyrirsjáanlegur sé stórkostlegur húsnæðisvandi verði frumvarpið að lögum vegna þess að flytja þarf stofnanirnar, sameina þær. Ég minni á að sameiningarkostnaður ráðuneytanna er á bilinu 300–400 milljónir nú þegar eftir að þessi verklausa vinstri stjórn tók við völdum — 300–400 milljónir, þetta eru engir smápeningar einungis við að uppfylla gæluverkefni, sameina ráðuneyti og flytja til stofnanir, nefndir og ráð. Þetta er alveg ótrúleg stjórn sem ríkir í þessu landi, en þetta eru áherslur sem þessi kratastjórn hefur tileinkað sér. Einhver kallar þessa ríkisstjórn kommúnistastjórn, en ég kýs að kalla hana kratastjórn, vegna þess að verið er að kratavæða öll mál.

Umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er tvær blaðsíður og það eru tvær blaðsíður um ekki neitt. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins á að gera kostnaðarmat á frumvörpum, það er hennar hlutverk. Í þessu sambandi minni ég enn og aftur á að við þyrftum að hafa lagaskrifstofu Alþingis sem gæti tekið frumvörp af þessu tagi og sent þau heim til sín. En að geta skrifað heilar tvær blaðsíður í frumvarpi um ekki neitt er merkilegur hlutur, því að hér er ekki einu sinni hálfsannleikur. Settar eru fram einhverjar rekstrartölur frá hverri stofnun. Verið er að ýja að því hvað þetta kostar hugsanlega, verið að ýja að því hvað þetta kostar hugsanlega til framtíðar, en engar fastar tölur og engir útreikningar liggja að baki á því hvað framkvæmd þessa frumvarps kostar. Það er líklega vegna þess að ráðherrar í ríkisstjórn líta svo á að ríkistékkinn sé opinn, ríkissjóður sé opinn, og hægt sé að setja aukakostnað sem til fellur á fjáraukalög.

Þetta eru vinnubrögð sem ég hélt að við værum öll sammála um að leggja af eftir bankahrunið. Þetta eru vinnubrögð sem ég kann ekki að meta eftir bankahrunið, sérstaklega í ljósi þess að frumvörp hafa verið að fara í gegnum þingið sem standast ekki stjórnarskrá, samanber dóminn sem féll á ríkisstjórnina um daginn varðandi gengislánin. Þetta er sett fram með svo miklum kæruleysistón að við það verður ekki unað. Þetta leiðir líka í ljós að á Alþingi þyrfti að vera einhvers konar fjárlagaskrifstofa. Þeim frumvörpum sem liggja fyrir, um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, og hina svokölluðu Farsýslu, er ekki treystandi.

Framkvæmdarvaldið getur ekki svarað sjálfu sér því hvað þetta muni kosta. Framkvæmdarvaldið getur ekki svarað sjálfu sér því hvað þetta muni kosta til framtíðar. Og framkvæmdarvaldið, fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins, reynir ekki einu sinni að gera rekstraráætlun. Frú forseti. Það er kennt í menntaskóla að gera rekstraráætlanir ef nemendur eru á verslunarbraut. Hér erum við að tala um fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Hvað segir þetta okkur? Þetta eru vinnubrögð til skammar, þessi slælegu vinnubrögð batna ekkert. Þegar maður gagnrýnir frumvörp er maður neikvæður, þá er maður illa upplagður og hvað þetta heitir allt hjá ríkisstjórnarflokkunum. Einn kallaði hér úti í sal áðan: Áttu ekki afmæli í dag, ertu ekki glöð? Svona er nú málflutningurinn á hinu háa Alþingi þegar þessi verklausa vinstri stjórn er að reyna að stjórna landinu.

Ég óska eftir því að þetta mál fari aftur til nefndar því að það er ekki fullrætt eins og það er. Það hafa komið mjög margar viðvaranir við þessu frumvarpi og frumvarpinu hinu síðara um Vegagerðina sem verður að skoða betur.

Ég sé ekki hvers vegna sett er í asagírinn í þessu máli, sérstaklega í ljósi þess að þegar um gildistökuákvæði er að ræða er farið fram yfir þau tímamörk sem varða þessar stofnanir. Ég vil því að þessi mál verði skoðuð betur og þetta komi aftur til nefndar.

Fyrst og síðast verður að svara því hvað verður um norðurslóðastarf og rannsóknir Siglingastofnunar og alþjóðlega starfið sem þeir sinna fyrir okkur. Hvert á að setja það, hæstv. innanríkisráðherra? Við getum ekki látið þetta fara svona í gegnum þingið. Ég hvet þingmenn til að kynna sér málin betur, því að um alvarlegt mál er að ræða. Ég segi það enn: Hér er verið að ráðast á og búta niður eina best reknu ríkisstofnunina, en líklega eru þær kröfur sem stofnunin hefur gert til sjálfrar sín of miklar fyrir þessa ríkisstjórn, virðist vera, vegna þess að það er ráðist á hana, þeir vilja helst hafa alla á hnjánum og láta ríkisstarfsmenn biðja um brauðmola frá sér.

Ég vísa þessu máli á bug og óska eftir að það fái betri umræðu. Frumvarpið getur ekki orðið að lögum eins og það er.