140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

fjölmiðlar.

599. mál
[15:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011. Í því eru ákveðnar breytingar á einstökum greinum og síðan er 11. gr. um eignarhald fjölmiðla sem sérstök nefnd sem tók til starfa í umboði hæstv. ráðherra hefur fjallað um.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu. Ég sat sjálf í menntamálanefnd sem tók til umfjöllunar það frumvarp sem hér eru nú lagðar til breytingar á. Ég verð að láta í ljós þær upplýsingar sem mér hafa borist um að fyrstu tíu greinarnar og breytingar í þeim eru ekki komnar frá þeirri nefnd sem skipuð var í umboði ráðherra heldur eru til komnar af hálfu ráðuneytisins eða einhverra innan ráðuneytisins og þá hugsanlega nýrrar fjölmiðlanefndar, þannig að það sé ljóst að sú nefnd sem sett var á laggirnar gerði ekki þær breytingar sem hér eru lagðar til í fyrstu tíu greinunum.

Ég tek undir með hv. þm. Eygló Harðardóttur, ég held að fara þurfi aðeins yfir þær greinar og þær breytingar sem hér eru lagðar til, bæði á 6. og 7. gr. sem og 10. gr., vegna þess að um þau atriði fór fram mikil og víðtæk umræða í fyrrverandi menntamálanefnd þingsins sem afgreiddi fjölmiðlalögin. Það þarf að skoða frekar af hverju óskað er eftir þeim breytingum sem hér eru gerðar og hæstv. ráðherra fór yfir áðan. Það er síðan spurning hvort núverandi allsherjar- og menntamálanefnd sé endilega sammála því sem hæstv. ráðherra gat um og hvort hún fallist á þær breytingar sem hér eru lagðar til.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Skúla Helgasyni að það er þarft að hér sé stunduð heilbrigð rannsóknarblaðamennska og að blaðamenn geti sótt í sjóð til að geta stundað slíka rannsóknarblaðamennsku sem yrði bæði til þess að opna einstök mál, svo að fólkið í landinu vissi hvað hefði gerst og hvað byggi að baki, og veita aðhald, eins og hv. þingmaður sagði, ákveðnum stofnunum í samfélaginu sem nauðsyn ber að veita aðhald til að styrkja lýðræðið sem er okkur öllum svo dýrmætt. En í rannsóknarblaðamennsku verður líka að gæta þess að ekki sé farið í þá átt að elta uppi einstaka aðila einhverra hluta vegna sem oftar en ekki hafa litla sem enga þýðingu fyrir upplýsingarétt almennings. Þar verður að vera skýrt skorið á milli.

Mig langar að fjalla örstutt, virðulegur forseti, um 11. gr. sem er um eignarhald á fjölmiðlum og það sem þar er rætt um eftirlit með fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlum. Ég er þess meðvituð að einhvers staðar þarf það eftirlit að vera fyrir hendi, einhvers staðar verður einhver stjórnsýslustofnun að geta brugðist við og lagfært það sem miður fer. Ég óttast hins vegar alltaf, virðulegur forseti, vald embættismanna innan stjórnsýslunnar og tel að sérstaklega þurfi að skerpa á því hvað varðar stjórnsýslulögin í þessari grein, að alltaf sé tryggt að virtur sé andmælaréttur þeirrar fjölmiðlunar eða fjölmiðlaveitu sem um ræðir og ástæða þykir til að skoða vegna sértækra aðstæðna sem geta komið í veg fyrir eða takmarkað eða haft skaðleg áhrif á fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlum. Við búum í fámennu landi og það verður að vera tryggt að andmælaréttur sé virtur og fjölmiðlaveitum séu veitt tímamörk til að svara eftirlitsstofnunum eins og Samkeppniseftirliti eða fjölmiðlanefnd. Mér þykir að það þurfi líka að skoða þessar greinar aðeins frekar til að tryggja rétt fjölmiðlaveitna fyrir ágangi, eftirliti embættismanna innan stjórnsýslunnar. En þetta mun hv. allsherjar- og menntamálanefnd væntanlega ræða.

Ég hef líka verið örlítið hugsi yfir eignarhaldi á fjölmiðlum og ætla nú að tala tæpitungulaust, virðulegur forseti. Innan velferðarnefndar hafa menn haft áhyggjur af eignarhaldi heilbrigðisstétta í ákveðnum fyrirtækjum, eignarhaldi heilbrigðisstétta í fyrirtækjum sem flytja inn íhluti til græðslu í mannslíkamann. Menn hafa viljað ganga töluvert langt í því að banna slíkt og horft til þess að þar geti verið ákveðnir hagsmunaárekstrar og hagsmunatengsl og með einum eða öðrum hætti þurfi að koma í veg fyrir slíkt. Við fetum þar hinn hárfína veg meðalhófs og jafnræðis.

Ég vil af því tilefni nefna að það hlýtur þá að vera umhugsunarvert fyrir löggjafann hvar stjórnmálamenn sitja hvað þetta varðar, þ.e. eignarhald stjórnmálamanna á fjölmiðlum og þá hvers konar fjölmiðlum, hvort heldur um er að ræða blað, sjónvarp eða netmiðil. Ekkert er mikilvægara stjórnmálamanninum og stjórnmálaflokkunum en að skoðanir þeirra heyrist sem víðast og það er stjórnmálamönnum mikilvægt, hvaða flokki svo sem þeir tilheyra, að skoðanamyndun í þeirra þágu styrki sess þeirra. Þess vegna finnst mér að líka þurfi að ræða og taka þann þátt inn hvernig eignarhaldi stjórnmálamanna og stjórnmálasamtaka verði háttað á fjölmiðlum með tilliti til hagsmunaárekstra, hagsmunatengsla og skoðanamyndandi áhrifa, því að um það er hér rætt.

Ég læt það verða, virðulegur forseti, lokaorð inn í þessa 1. umr. um breytingu á lögum um fjölmiðla, en ítreka það sem ég sagði áðan að fyrstu tíu greinarnar og breytingar þar eru breytingar úr ráðuneytinu, frá fjölmiðlanefnd eða embættismönnum ráðuneytisins, þær eru ekki komnar frá nefndinni sem sett var á laggirnar. Hún fjallaði eingöngu um 11. gr., þar sem eru þrjár nýjar greinar; 62. gr. a, 62. gr. b og c, og farið svo í 63. gr.

Virðulegur forseti. Það verður spennandi sem endranær að fá þetta frumvarp inn í nefnd, fjalla um það og taka á þeim verkefnum sem það býður upp á og ég fagna fram komnu frumvarpi um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011.