140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunni á þetta mál sér allnokkra forsögu. Að einhverju leyti er hún rakin í athugasemdum með frumvarpinu en ég held hins vegar að gera mætti nánari grein fyrir mörgum þeim þáttum.

Ég vil í upphafi geta þess að ég á sæti í umhverfis- og samgöngunefnd og hef frá því að ég kom að þessu máli á þeim vettvangi haft ákveðnar efasemdir um það verkefni sem hér er til umfjöllunar. Það stafar ekki af því að ég hafi ekki trú á að göng undir Vaðlaheiði séu samgöngubót. Auðvitað verður um mikla samgöngubót að ræða ef til þess kemur. Ég hef heldur ekki efasemdir um það að göng af þessu tagi geta haft jákvæð og munu trúlega, verði þau að veruleika, hafa mjög jákvæð áhrif á byggðirnar sem næst standa. Sérstaklega mun þetta styrkja stöðuna í Þingeyjarsýslum.

Ég hef heldur ekki efasemdir um, hæstv. forseti, að það sé jákvætt, muni sýna jákvæð áhrif þjóðhagslega að fara í stórframkvæmd af þessu tagi þegar litið er til þess hvernig staða framkvæmda í landinu almennt er og hefur verið síðustu árin. Við vitum og það er bara staðreynd hvort sem okkur líkar það betur eða verr að frá hruni hefur verið stigið mjög harkalega á bremsuna hvað varðar allar framkvæmdir bæði í samgöngumálum og öðrum málum. Að því leyti til væri jákvætt að ráðast í þessa framkvæmd með sama hætti og það væri jákvætt að ráðast í margar aðrar framkvæmdir sem geta haft jákvæð byggðaáhrif, sem geta haft jákvæð þjóðhagsleg áhrif og sem geta þjónað góðum tilgangi varðandi umferðarmál.

Samgönguáætlun er meginverkfæri okkar til að vinna að verkefnum af þessu tagi. Samgönguáætlun er umdeild á hverjum tíma en í henni felst þó ákveðin stefnumörkun til lengri tíma um það hvernig forgangsraða beri verkefnum á sviði samgöngumála, þar á meðal vegamála. Ljóst er að miðað við þá mælikvarða sem lagðir hafa verið til grundvallar við gerð samgönguáætlunar skorar þetta tiltekna verkefni, Vaðlaheiðargöng, ekkert sérstaklega hátt. Það eru önnur verkefni sem eru mun framar í röðinni ef mælikvarðar samgönguáætlunar eru notaðir, ef horft er til þeirra mælikvarða. Af þeim sökum og þá þegar af þeim sökum hljóta menn að spyrja sig hvort réttlætanlegt sé að takast þetta verkefni á hendur miðað við núverandi aðstæður, hvort rétt sé að taka það fyrir og ráðast í það á undan öðrum stórverkefnum á sviði samgöngumála. Og þá hefur verið nefnd ein forsenda, meginforsenda þess að þetta er tekið út fyrir sviga, tekið út fyrir samgönguáætlun og á að afgreiðast sérstaklega. Hv. þingmenn þekkja það. Það er að þetta sé verkefni sem eigi að standa undir sér með veggjöldum. Þetta hét einkaframkvæmd á fyrri stigum en mér heyrist menn vera hættir að nota það vegna þess að auðvitað er ríkið yfir og allt um kring og opinberir aðilar þannig að þáttur einkaaðila í þessu er ekkert sérstaklega mikill þegar horft er á það þó að þeir finnist vissulega í þessu sambandi. Það eru fyrst og fremst opinberir aðilar sem að þessu standa. En einkaverkefni er ekki alveg rétt lýsing á þessu. Rökin hafa sem sagt verið þau að vegna þess að verkefnið muni standa undir sér með veggjöldum þá þurfi ekki að hafa áhyggjur af því og þess vegna sé fullkomlega réttlætanlegt að taka þetta út fyrir sviga samgönguáætlunar og afgreiða það sérstaklega.

Þá kem ég að því sem við höfum einkum rætt á vettvangi umhverfis- og samgöngunefndar, þ.e. hvort þær forsendur sem gefnar eru fyrir því að þetta verkefni standi undir sér séu byggðar á nægilega traustum forsendum. Ég verð að játa það að því meiri sem umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar um þetta mál hefur verið, því fleiri skýrslur sem við höfum lesið og því fleiri gesti sem við höfum fengið á okkar fundi, því minni trú hef ég á að þetta verkefni getið staðið undir sér miðað við þær forsendur að veggjöld greiði allan kostnað, því miður. Ég hef bara ekki trú á því að það gangi upp. Ég hef þvert á móti þá trú að áhætta ríkisins, bæði sem lánveitanda og sem eignaraðila að því félagi sem sér um verkefnið, verði veruleg og forsendur sem leiða til annarrar niðurstöðu finnst mér því miður byggðar fyrst og fremst á óhóflegri bjartsýni en minna á raunsæi. Þetta er ástæða þess að ég tel að fara beri afar varlega í þessum efnum. Ég viðurkenni eins og ég sagði í upphafi ýmis jákvæð áhrif sem gætu stafað af þessu verkefni eins og raunar mörgum öðrum stórverkefnum á sviði samgöngumála. En mér finnst ekki verið að fara með þetta mál fyrir þingið á réttum forsendum.

Í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra áðan sagði ég að ég teldi vissulega betra og réttara að fara með málið með þeim hætti sem hér er gert heldur en miða við hvernig áætlanir litu út á fyrri stigum. Hér er óskað eftir sérstakri heimild að lögum til fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Ég fæ ekki betur séð miðað við þá umræðu sem átti sér stað í haust, nóvember og desember, að ekki hafi verið talin þörf á slíku á því stigi. Viðhorf virðast hafa breyst, hugsanlega með því að hæstv. núverandi fjármálaráðherra tók við því embætti. Það kann að vera, ég veit það ekki. En alla vega virðist hafa átt sér stað stefnubreyting hvað þetta varðar. Í afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga fyrir jól minntist enginn á að nauðsyn væri á sérstakri lagasetningu til að heimilt væri að veita það lán af hálfu ríkisins sem átti að vera forsenda þess að hægt væri að hefja þessar framkvæmdir. Það er rétt að sú nefnd sem fær þetta til meðferðar fari yfir þessa þætti því að ég verð að játa það að þessi atburðarás rennir að einhverju leyti stoðum undir þá tilfinningu mína að þegar farið var með þetta mál á síðustu stigum inn í fjáraukalög í nóvember og síðan inn fjárlög í desember hafi menn ætlað sér að komast einhvern veginn léttari leið í gegnum þingið án þess að gefa allar upplýsingar, án þess að sýna á öll spil og mér finnst þegar ég horfi á þetta að þar hafi verið um að ræða tilraun til að plata þingmenn. En nóg um það.

Nú liggur þetta frumvarp fyrir og það þarf að fara vel yfir það. Ég reikna með að málið gangi til hv. fjárlaganefndar. Ég tel nauðsynlegt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd komi líka að málinu. Hér er einfaldlega um að ræða risavaxið samgönguverkefni og það væri mjög óeðlilegt ef umhverfis- og samgöngunefnd kæmi ekki að því í því sambandi. Umhverfis- og samgöngunefnd hefur látið sig málin varða og þó að málinu yrði hugsanlega vísað með formlegum hætti til fjárlaganefndar þá er eðlilegt að fram komi krafa um að umhverfis- og samgöngunefnd fái tækifæri til að láta í ljós álit sitt á því meðan það er til meðferðar hjá fjárlaganefnd.

Það er nauðsynlegt að fara yfir þessar forsendur. Það er nauðsynlegt að fara aftur yfir þær greiningar sem hér liggja til grundvallar. Hér liggur til dæmis fyrir ítarleg skýrsla frá Ríkisábyrgðasjóði sem hefur það lögbundna hlutverk að fylgjast með ábyrgðum ríkisins á verkefnum af þessu tagi. Það verður seint sagt að sú umsögn eða álitsgerð auki trú manna á því að forsendur þessa máls gangi upp og ég held að það sé afar mikilvægt að farið verði vandlega yfir það. Það verður líka forvitnilegt að vita hver aðkoma Ríkisábyrgðasjóðs á fyrri stigum málsins var, hvort sjóðurinn hefur komið að málinu áður eða leitað hafi verið álits á þessu verkefni hjá Ríkisábyrgðasjóði áður. Síðan er nauðsynlegt líka að það sé skoðað að hve miklu leyti frumvörp fjármálaráðherra og áform fjármálaráðherra taka mið af þeim ábendingum sem koma fram í athugasemdum Ríkisábyrgðasjóðs. Það er afar mikilvægt.

Eins og ýmsir hv. þingmenn hafa sagt er um áhættu að ræða. Hér er um aðferð að ræða sem ber nokkurn keim af því, svo vægt sé til orða tekið, að verið sé að fara fram hjá efnahag ríkisins með þetta verkefni. Ég held að það sé alveg ljóst, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt áherslu á og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, að því fleiri verkefni af þessu tagi sem fara í einhvern farveg eins og þennan, því erfiðara verður að hafa heildaryfirsýn yfir fjárhagslegar skuldbindingar ríkissjóðs. Það er í þessu áhætta sem á eftir að meta miklu betur en gert hefur verið. Þrátt fyrir að verkefnið sem slíkt sé fallegt, jákvætt og gott þá er verið að koma með það inn í þingið á forsendum sem ég er hræddur um að standist ekki.