140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:11]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Það er eitt sem ég hygg að allir séu sammála um í þessu máli, jafnvel áköfustu forvígismenn og talsmenn Vaðlaheiðarganga og það er að Vaðlaheiðargöng eru ekki meðal brýnustu samgönguverkefna landsmanna. Það eru önnur mun brýnni og meira áríðandi verkefni sem blasa við um land allt. Með tilliti til gangagerðar sérstaklega hafa til að mynda bæði Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng verið metin mun meira aðkallandi en Vaðlaheiðargöng.

Í verki hins vegar, í praxís, blasir við okkur að setja eigi Vaðlaheiðargöng framar í forgangsröðunina af einni forsendu, jú. Hver hefur sú forsenda verið? Að göngin standi alfarið undir sér sjálf og ekki þurfi að koma til fjárútláta af hálfu ríkissjóðs.

Til að réttlæta megi þá aðgerð að fara í Vaðlaheiðargöng á meðan aðrar brýnni samgönguúrbætur bíða verður það að sjálfsögðu að vera hafið yfir eðlilegan vafa að þessi grunnforsenda í málsmeðferðinni standist. Það getur ekki verið forsvaranlegt af hálfu vörslumanna ríkissjóðs og okkar hér að fallast á of mikla óvissu eða áhættu í þessum efnum enda getum við ekki sætt okkur við þá skýringu að sú áhætta muni á endanum ekki bitna á neinum öðrum verkefnum. Að sjálfsögðu mun það sem fellur á ríkissjóð bitna á öðru. Það er ekki hægt að samþykkja þann málflutning að þetta sé allt í himnalagi vegna þess að þetta muni hvort eð er ekki bitna á neinu öðru.

Það hefur verið rakið hér örstutt í dag hvernig samgöngunefnd reyndi ítrekað að láta gera óháða úttekt og skýrslu um þetta mál. Því miður gekk það ekki eftir en það sem gerðist var að framkvæmdarvaldið fór þess í stað fram á slíka úttekt. Það er að sjálfsögðu mjög óheppilegt, þetta hefði átt að vera á okkar könnu, Alþingis, þingnefndarinnar, því að þá væri það á okkar könnu að velja þann sem verður fyrir valinu við verkefnið, það verður á okkar könnu að gera verklýsingu o.s.frv. og eiga í samskiptum við hinn óháða úttektaraðila. Þarna var málið algjörlega tekið af okkur og fært til framkvæmdarvaldsins.

Í byrjun janúar birtist skýrsla Pálma Kristinssonar verkfræðings þar sem fram komu mjög alvarlegar athugasemdir við grunnforsendur Vaðlaheiðarganga. Pálmi vann skýrslu sína sjálfstætt og að eigin frumkvæði og er þess vegna óháður en hann var einmitt einn aðalráðgjafi lífeyrissjóðanna í viðræðum þeirra við stjórnvöld um aðkomu að samgönguverkefnum. Nokkrum dögum síðar birtist svo skýrsla IFS Greiningar og enn síðar kom svo upp úr kafinu, flestum að óvörum, skýrsla sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafði árið 2010 tekið saman.

Bæði skýrsla Pálma Kristinssonar og Hagfræðistofnunar bera þess glöggt vitni um hve mikla óvissuáhættu er að ræða fyrir ríkissjóð. Ég gæti farið í gegnum það í löngu máli, en þessar skýrslur, þessar ábendingar, liggja fyrir og mér þykir í raun athyglisvert hvernig látið er nánast eins og þessar skýrslur og þessi vinna sé ekki til. En þarna er hún. Í dag hefur meðal annars verið rætt um vexti og vaxtaspá og aðvaranir ýmissa í þeim efnum, nú síðast Ríkisábyrgðasjóðs. Ég ætla ekki að fara nánar út í það á þessu stigi en vil nefna eitt hvað varðar til dæmis skýrslu Pálma. Henni var lýst sem mikilli dómsdagsspá, meðal annars varðandi umferðarspána, svört skýrsla — við eigum ekki að vera svona svartsýn. Staðreyndin er hins vegar sú að umferð hefur dregist mjög saman á þjóðvegum landsins á síðustu þremur árum og frá því að skýrsla Pálma kom út hefur umferð um Víkurskarð dregist enn meira saman en hann gerði ráð fyrir í sinni meintu dómsdagsspá.

Ekki þarf að hafa mörg orð um verðbólguna og ýmsa aðra þætti. Skýrsla IFS Greiningar er ekki jafnómyrk í máli og tvær fyrrnefndar skýrslur, en þó er mikilvægt að halda til haga varnaðarorðum sem þar eru uppi og ekki má gera lítið úr. Það sem hefur hins vegar helst vakið spurningar hvað varðar skýrslu IFS Greiningar — og þess vegna hefði verið kærkomið ef þessi skýrslugerð hefði verið á vegum þingsins, að það hefði verið að beiðni okkar, verklýsingin sem hefði verið þarna til grundvallar. Þar er í reynd ekki sjálfstæð greining á þeim grunnforsendum sem mestur styr stendur þó um, forsendur Vaðlaheiðarganga og Vegagerðarinnar eru á víxl meira og minna teknar sem gefnar, gerð er á þeim næmnigreining en í mjög takmörkuðum mæli er lagt mat á raunefni þeirra. Hvorki Vaðlaheiðargöng né IFS Greining gera tilraun til að tíunda eða meta sjálfstætt þá óvissuáhættu og kostnað sem færi yfir á ríkið en það eru veigamestu efasemdirnar sem snúa að þessu verkefni, nákvæmlega hvernig þessar grunnforsendur standist.

Hvers vegna er það svo áríðandi? Jú, vegna þess að fólk getur haldið langar ræður um hvað þetta sé þjóðhagslega hagkvæmt og hvað þetta sé mikil samgöngubót o.s.frv., að sjálfsögðu. Ég get haldið langar ræður um mörg samgönguverkefni landsmanna, hversu brýn þau eru út frá mörgum ólíkum sjónarmiðum. En það er ekki það sem málið snýst um hér, vegna þess að búið er að troða þessari framkvæmd fram fyrir aðrar á einni forsendu, þ.e. að hún standi undir sér sjálf. Þá ítreka ég aftur að ef það er ekki hafið yfir eðlilegan vafa hlýtur það að vera skylda okkar — líka með tilliti til sanngirni í garð landsmanna sem margir hafa beðið í ár og áratugi eftir brýnum samgöngubótum — að við gerum þetta rétt, að við tölum um málið eins og það er og þetta fari þá í eðlilega forgangsröðun samgönguáætlunar. Það eru ýmsir óvissuþættir sem ég hef ekki tíma til að rekja hér en komið hefur verið inn á í máli þingmanna í kvöld og í dag.

Varðandi forgangsröðun sérstaklega — nú erum við í samgöngunefnd að vinna að samgönguáætlun. Það tekur á mann að taka á móti öllu þessu fólki alls staðar að af landinu, sem eins og ég sagði hefur árum og jafnvel áratugum saman verið að bíða eftir úrbótum sinna mála, en um leið horfast í augu við að okkur er þröngur stakkur sniðinn og við verðum að vera mjög grimm í forgangsröðun.

Hvert er þá tilfellið við Vaðlaheiðargöng? Jú, þetta er stytting hringvegarins um 16 kílómetra og tíu mínútur í akstri. Víkurskarð er í 98. sæti yfir hættumestu vegi landsins og ekki á lista yfir tíu slysamestu vegi landsins. Ef litið er til atvinnusköpunar sérstaklega, því að um það er mikið rætt í þessu samhengi, væri náttúrlega vel þess virði að kanna hvort ekki mætti ætla að fjölþættar samgönguúrbætur um land allt væru bæði mannaflsfrekari og sköpuðu meiri atvinnu en gerð Vaðlaheiðarganga. Kannski ætti fjárlaganefnd einnig sérstaklega að skoða í þessu tilliti reynsluna af öðrum göngum, svo sem Héðinsfjarðargöngum og fleiru. Hvert er til dæmis hlutfall erlends vinnuafls og innlends vinnuafls í þessu samhengi, gjaldeyrisútstreymi, aðföng, erlendir verktakar o.s.frv.? Það væri kannski hyggilegt að fara yfir þetta allt saman í þessu samhengi og spyrja þar krítískra spurninga.

Hvað um umferðaröryggi á landsvísu? Ef við meinum eitthvað með því að setja umferðaröryggi ofarlega á okkar forgangslista mundu fjölbreytt smærri verkefni, sem einmitt eru mannaflsfrek, atvinnuskapandi um land allt, gera okkur sem samfélagi mun meira gagn hvað varðar umferðaröryggi en bygging Vaðlaheiðarganga.

Nú er það þannig að þegar maður talar einu sinni um þessi mál og vogar sér að spyrja gagnrýninna spurninga fær maður það oft á sig að maður sé óvinur landsbyggðarinnar, vilji ekki efla samgöngur á landsbyggðinni, þetta sé allt sama 101-pakkið hér fyrir sunnan, maður sé á móti atvinnusköpun o.s.frv. Ekkert er fjær lagi. Það er algjörlega skýrt í mínum huga, í þeirri forgangsröðun sem ég tel rétt að við höfum í samgöngumálum þjóðarinnar, að þar verði landsbyggðin að koma fyrst. Ég sem þingmaður míns kjördæmis er að krefjast þess af þessu fjölmennasta kjördæmi landsins að þar bíði alls kyns framkvæmdir vegna þess að landsbyggðin og þeir sem búa við mun lakari samgöngur eigi að koma fyrst. En þá er lykilatriði að maður hafi trú á því að verið sé að fara fram á sanngjörnum forsendum, á réttum forsendum, en ekki að riðla eðlilegri forgangsröðun og ætla að halda því fram að þetta standist allt þegar mjög alvarlegar efasemdir eru um slíkt.

Hvernig má segja í raun að þær efasemdir séu staðfestar? Jú, það hlýtur að vekja okkur til umhugsunar að með þessu frumvarpi sé verið að krefja okkur um að ganga á svig við lög um ríkisábyrgðir, líta fram hjá tilteknum þáttum svo að þetta nái að togast þar inn. Það hlýtur að vekja okkur til alvarlegrar umhugsunar í þessu ferli hversu lítið er gert með alvarlegar ábendingar og tillögur Ríkisábyrgðasjóðs. Hvað þýðir að slá um sig og segja: Jú, við erum búin að leita eftir umsögn hjá Ríkisábyrgðasjóði, en gera svo ekkert með það? Það eru mjög alvarlegar ábendingar sem þar koma fram. Það er ekki boðlegt að láta eins og ekkert sé, það er það ekki.

Það verður að horfa á þessi mál heildstætt, út frá sanngirni og réttri forgangsröðun í samgöngumálum landsmanna. Það er að mínu mati gróf móðgun við það mikla ferli sem samgönguáætlun er, þar sem ótal aðilar koma að og leggja sig í líma við að forgangsraða rétt innan þröngs ramma, að leggja síðan eitthvað til sem brýtur upp þetta ferli sem þó er sátt um sem slíkt. Fólk getur greint á um hvað eigi að koma fyrr og hvað seinna innan samgönguáætlunar en samt er sátt um þetta ferli sem slíkt, að við eigum að bera virðingu fyrir því að svona eigum við að fara að, að það sé fagleg leið, að við séum að reyna að vinna að því faglega hvernig ganga eigi fram í þessum málum. Þetta fer á svig við það.

Í stað þess að við þurfum að reyna að fara fram hjá lögum um Ríkisábyrgðasjóð, í stað þess að við þurfum að líta fram hjá ábendingum og tillögum Ríkisábyrgðasjóðs, í stað þess að við (Forseti hringir.) þurfum að líta fram hjá alvarlegum varnaðarorðum ýmissa aðila, eigum við að segja: Heyrðu, það er rétt af okkur. (Forseti hringir.) Fínt, Vaðlaheiðargöng eiga án efa rétt á sér þegar sá tími kemur. (Forseti hringir.) En þau eiga að raðast með sanngjörnum og heiðarlegum hætti inn í samgönguáætlun, (Forseti hringir.) annars erum við hreinlega að gera rangt.