140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:26]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek afdráttarlaust undir þau sjónarmið sem hv. þingmaður og formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, hefur gert grein fyrir um að það verkefni sem hér er rætt um eigi að fara á samgönguáætlun. Vegakerfi okkar er ein heild og rekið af samfélagslegri ábyrgð. Séu menn að velta fyrir sér forgangsröðun í því er tekist á um það í samgönguáætlun og ég er ekki þeirrar skoðunar að það séu mörg önnur verkefni sem eigi að fara þar framar. Ef menn vilja halda sig við göng þá nefni ég Dýrafjarðargöng — þar eru jú tenging milli heilla landsvæða. Ég tek því afdráttarlaust undir það að þetta verkefni á að sjálfsögðu heima í samgönguáætlun og ekki á að fara neitt bakdyramegin með það í aðra röðun.

Það er eitt sem ég vildi spyrja hv. þingmann að í andsvari mínu: Er ekki alveg öruggt að þetta mál fari til umhverfis- og samgöngunefndar og fái þar umfjöllun og röðun þó að það sé komið hér fram með þessum hætti?