140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér var nokkuð brugðið að sjá að forseti hleypti ekki hv. þm. Pétri Blöndal í ræðustól. Hann bað um orðið á meðan ég var í stólnum en það var ekki nóg og ég sá ekki betur en hv. þingmaður bæði um að fá að taka til máls undir liðnum fundarstjórn forseta. Við því var heldur ekki orðið. Við ræðum þetta kannski betur undir liðnum fundarstjórn forseta á eftir en þetta kom mér á óvart. Ég tel að þetta sé ekki til eftirbreytni og skil ekki ákvörðun forseta en ég ræði það betur á eftir undir réttum lið.

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins. Það að breyta lögum til að hægt sé að taka við þessum styrkjum eða með öðrum orðum að breyta lögum eftir forskrift Evrópusambandsins hefur verið nokkuð umdeilt af ástæðu. Í mínum huga er algerlega skýrt að við erum að staðfesta það sem hefur verið haldið fram. Ég hef ekki verið sá sem hefur harðast haldið því fram, alls ekki, en þegar menn skoða þessa styrki hljóta þeir að sjá að fyrst og fremst er aðlögunaráætlun í gangi að Evrópusambandinu. Við erum að innleiða samstarfsnet og byggja upp fyrir innleiðingu vistgerða- og fuglatilskipunar ESB og ýmislegt annað sem við þurfum auðvitað ekkert að gera og gerum ekki ef við göngum ekki í Evrópusambandið.

Það vakti furðu mína þegar ég las glæsilegt blað, það er ekki hægt að segja annað en þetta sé mjög fallegt blað, sem ber nafnið Sveitin sem þeir sem eru fylgjandi því að Ísland gangi í ESB hafa gefið út til að kynna sjónarmið sín. Þar er fjallað aðeins um IPA-styrki og segir í fyrirsögn „Valdið fært til heimamanna“ og í undirfyrirsögn „IPA-styrkir — vannýtt tækifæri í byggða- og atvinnuþróun“. Nokkuð er fjallað um þessa styrki og upplýst að þeir eru 4,6 milljarðar kr. og síðan segir á einum stað, með leyfi forseta:

„Hugmyndin er að í sveitarfélögum um land allt æfi fólk sig í að búa til verkefni og umsóknir þannig að ef við göngum inn þekki allir til þess hvernig það er að vera hluti af byggðastefnu ESB og verði orðnir læsir á kerfið þegar að kemur. Við erum að fara í alvöruæfingu, prófa að búa til alls konar atvinnu- og mannauðsumsóknir sem eru unnar með öðrum hætti en við eigum að venjast á Íslandi.“

Ég vek athygli á því sem hér er verið að segja og ætla að lesa það aftur: „Hugmyndin er að í sveitarfélögum um land allt æfi fólk sig í að búa til verkefni og umsóknir …“ Það er engin smáæfing sem kostar hvorki meira né minna en 4,6 milljarða kr. Hér hafa menn haldið langar ræður um að þetta sé bara kalt hagsmunamat fyrir Íslendinga; við þurfum að breyta lögum, þar sem við erum með öðruvísi skattumhverfi en allir aðrir, vegna þess að þá fáum við svo mikið af peningum frá Evrópusambandinu.

Það er ákveðin mótsögn í því að ríkisstjórnin sem hefur gert flest það sem hún getur til að koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu og megi ekki sjá atvinnutækifæri án þess að bregða fæti fyrir það sé nú tilbúin til þess í þetta eina skipti, að því er virðist, að breyta skattareglum til að örva fjárfestingu. Það er þó bundið við það að fjárfestingin sé hluti af styrkjum Evrópusambandsins.

Ég tel að við eigum að ræða þessa hluti eins og þeir eru. Þessir styrkir eru ekki til komnir fyrir einhverja æfingu á umsóknarferli, það stenst ekki nokkra einustu skoðun. Menn setja ekki 4,6 milljarða í að æfa fólk í að búa til umsóknir. Þá væri einfaldast að halda gott námskeið í því sem væri örugglega hægt að gera án þess að það kostaði sérstaklega mikla fjármuni. Þetta er auðvitað gert — og það er þannig sem Evrópusambandið hefur virkað — til að vekja eða bæta ímynd sambandsins hjá einstökum hópum innan aðildarþjóðanna. Það veitir styrki og merkir staði alla jafna í bak og fyrir með fána sínum. Ef menn keyra um ýmsar byggðir í Evrópusambandslöndum sjá þeir Evrópusambandsfánann víða. Staðreyndin er sú að þau lönd sem við berum okkur saman við í Evrópusambandinu greiða mun meira til Evrópusambandsins en þau fá til baka.

Á Vísindavef Háskóla Íslands er hægt að skoða ýmislegt. Þar er vitnað í kannanir sem gerðar hafa verið af endurskoðendafyrirtækjum og ýmsum íslenskum aðilum á því hver yrði aflögukostnaður Íslands við aðild að ESB. Framlag Íslands til Evrópusambandsins yrði að öllum líkindum 13–15 miljarðar kr. á hverju einasta ári. Þetta er nærri því helmingurinn, ef miðað er við hærri upphæðina, af rekstrarkostnaði Landspítalans. Síðan er því ósvarað hvað Ísland gæti fengið til baka í formi ýmissa styrkja. Þetta gerist þá þannig að Ísland greiðir verulegar upphæðir til Evrópusambandsins en getur náð þeim fjármunum að hluta til til baka. Gert er ráð fyrir að nettókostnaður Íslands gæti orðið 3–6 milljarðar kr. Þetta er að vísu háð ákveðinni óvissu en hugsunin er einfaldlega sú að við greiðum til Evrópusambandsins og reynum síðan fá eitthvað til baka.

Það hefur lítið verið rætt en sú staða er uppi í Evrópusambandinu og hefur verið í mörg ár, ætli það sé ekki í rúman áratug, að endurskoðendur Evrópusambandsins hafa ekki verið tilbúnir að skrifa upp á ársreikninga Evrópusambandsins. Það er einfaldlega vegna þess að þeir vita ekki hvert fjármunirnir fara. Þeir styrkir sem hefur kannski mest verið vísað til að hægt væri að sækja fjármuni í fyrir okkur Íslendinga eru byggðastefnustyrkir. Ekki er vitað hvert um 5% af þeim styrkjum fara, þetta eru auðvitað gríðarlegar upphæðir, og talið að misfarið sé með það fé. Það skiptir þess vegna miklu máli þegar menn sjá háar fjárhæðir fara til styrkja hérlendis að þeir séu meðvitaðir um að þeir séu ekki ókeypis heldur eitthvað sem íslenskir skattgreiðendur greiða.

Evrópusambandið hefur reyndar ekki gefið okkur neina afslætti af framlögum í tengslum við EES-samninginn, þvert á móti. Þeir hafa farið þess á leit við okkur að við greiðum áfram framlög til þróunarstyrkja innan Evrópusambandsins þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir því í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði að við hættum að greiða þá styrki. Frá því að við gengum í EES höfum við greitt marga milljarða á öllu því tímabili í allra handa styrki og þeir hafa farið til landa eins og Bretlands, Norður-Írlands, Portúgals, Spánar, Grikklands og fleiri Miðjarðarhafslanda eins og Möltu en einnig til Austur-Evrópu.

Þetta er sérkennilegt að mörgu leyti. Það er sérkennilegt að búa til sérskattareglur sem t.d. Félag löggilta endurskoðenda hefur bent á að séu óljósar og skekki samkeppnisstöðu svokallaðra EES-verktaka sem eiga að koma hingað gagnvart öðrum, en til að við fáum þessa styrki verða engir skattar teknir af þeim og það eru ekki bara þessir hefðbundnu tekjuskattar og virðisaukaskattur, það eru líka aðflutningsgjöld og annað slíkt. Þetta eru sérstakar skattareglur sem enginn annar nýtur. Einhverjum mundi þykja það óeðlilegt. Í ofanálag erum við með styrki sem miða að því að innleiða ýmislegt sem ég tel að sé ekki nein sátt um.

Tökum sem dæmi vistgerða- og fuglatilskipun ESB. Ef við værum aðili að Evrópusambandinu og værum búin að innleiða þetta þá þýddi það að bannað væri að drepa ref, hann væri friðaður. Þeir einu sem gætu fengið undanþágu til að veiða þann varg sem veldur gríðarlegum spjöllum í íslenskri náttúru — t.d. hefur verið bent á að friðlandið á Hornströndum hefur orðið fyrir gríðarlegum skaða og ekki bara fuglalíf þar heldur um allt land — væru þeir sem yrðu fyrir beinum skaða, þ.e. fjárbændur eða æðarbændur. Þetta kemur fram í skýrslu utanríkisráðherra um umhverfismál. Síðan er bannað að veiða hvali og ákveðnar reglur um seli — við þyrftum t.d. að koma upp einhverjum friðarsvæðum fyrir seli — og ýmislegt annað sem tengist þessari vistgerða- og fuglatilskipun.

Ef þetta er aðildarferlið eins og aðildarsinnar, þ.e. þeir sem vilja að Ísland gangi í ESB, og ríkisstjórnin halda fram væri eðlilegt að við mundum sækja um aðild og síðan kæmi niðurstaða um það hvort við ætluðum að fara inn eða ekki. Ef niðurstaðan yrði sú að við færum inn þá mundum við neyðast til að taka þetta upp og þá fengjum við hugsanlega einhverja styrki til baka gegn mótframlaginu úr því að það er fyrirkomulagið. Við mundum náttúrlega aldrei hagnast á því heldur mundum við alltaf borga með, en hér er ekkert um það að ræða. Hér er verið að greiða fyrir styrkjum sem við höfum ekkert að gera með eða þessi uppbygging hefur ekkert að gera með. Við mundum örugglega ekki forgangsraða í þágu þessara hluta sem við sitjum uppi með og getum lítið eða ekkert nýtt ef við förum ekki inn.

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni nokkuð sérkennilegt mál sem verður áhugavert að ræða á næstu dögum.