140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[19:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að segja að mér finnst alveg dæmalaus ósmekklegheit af Evrópusambandssinnum að kalla þetta blað sitt Sveitina. Eins og sveitin er falleg og góð hringinn í kringum Ísland finnst mér þetta illa gert.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í upplýsingar sem koma fram í bæklingi sem Evrópusambandið gefur út og heitir „Understanding Enlargement“, þ.e. „að skilja stækkunarferli“, eitthvað slíkt, á íslensku. Þar er listað upp til hvers þessir IPA-styrkir eru. Þar kemur fram að það er ekki nóg að það þurfi að hjálpa ríkjum til þess að aðlagast því kerfi og þeim reglum og lögum sem Evrópusambandið vinnur eftir eða knýr það áfram, heldur þurfi líka að tryggja að það sé gert með réttum hætti, þ.e. að innleiðingin sé eftir forskrift Evrópusambandsins. Má ætla að þegar slíkt er sett fram þurfi að setja fjármuni í og hjálpa ríkjum að innleiða reglur í undirbúningi fyrir þátttöku í þessu bandalagi, að þá sé hreinlega um einhvers konar aðlögun að ræða? Til hvers þarf að undirbúa og þjálfa og tryggja að hlutirnir séu rétt fram settir þegar á endastöð er komið ef ekki er verið að taka lítil skref (Forseti hringir.) inn í einu?