140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[19:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það rifjaðist dálítið upp fyrir mér þegar hv. þm. Birgir Ármannsson fór með ræðu sína og vísaði í þennan bækling sem sendur var á hvert heimili, a.m.k. til sveita, ég veit ekki hvort það var gert víðar, þar sem fólki er kennt hvernig eigi að sækja um styrki og, eins og hv. þingmaður nefndi það, hugsanlega reynt að fá það til að ánetjast þessu kerfi. Danir hafa lengi verið í Evrópusambandinu og eru nákvæmir á allar skráningar og í landbúnaðinum þar eru nákvæmar skráningar um hvað þeir eyða miklum tíma í hvert verkefni. Þar hafa menn sagt að alveg frá stofnun Evrópusambandsins og allt fram á þennan dag hafi á hverju ári bæst við einhverjar mínútur á dag sem menn þurfa að eyða í að skrifa skýrslur og fara á námskeið til að læra að sækja um styrki. Það sama hefur síðan verið upp á teningnum hjá Finnum, sem eru nýlega komnir inn, þeir hafa uppgötvað að það er lykilatriði í atvinnustarfsemi í Evrópusambandinu að sækja námskeið hjá fólki sem hefur vinnu af því að kenna fólki að sækja um styrki.

Auðvitað er þetta ekkert annað en aðlögun og það kemur fram bæði í þessum áróðursbæklingi sem og í skilgreiningunum í þingsályktunartillögunni og greinargerðinni þar. Hér hafa verið harðvítugar deilur allt frá því að aðildarumsóknin var samþykkt um það hvort hér færi fram aðlögun eða ekki og ég spyr hv. þingmann hvort hann geri sér grein fyrir af hverju þeir sem aðhyllast Evrópusambandið, þessar aðildarviðræður og vilja fara þarna inn eru svona feimnir við að viðurkenna að hér fari fram aðlögun og hafa reynt að finna (Forseti hringir.) alls kyns aðrar skilgreiningar á þessu hugtaki, farið undan í flæmingi en ekki viljað viðurkenna það sem þeir síðan standa frammi fyrir í þessum IPA-styrkjum.