140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:11]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt af verkefnunum af því að hann fór í raun ekki í þau verkefni sem hér liggja fyrir, heldur hélt miklar ræður um orðalag samningsins sem ég vona að við getum komið aðeins inn á á eftir. Það er verkefnið Katla jarðvangur sem á að fá milli 90 og 95 millj. kr. sem IPA-styrk af þeim 124 eða 125 millj. kr. sem áætlaðar eru nú til þess að reyna að koma verkefninu af stað. Hv. þingmaður ætti að kannast aðeins við verkefnið vegna þess að þrjú sveitarfélög á Suðurlandi, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur og Rangárþing eystra, standa að því ásamt ýmsum samstarfsmönnum. Í blaði sem rætt hefur verið í kvöld og heitir Sveitin, sem gefið er út af stuðningsmönnum aðildarumsóknarinnar þar sem gefnar eru upplýsingar, þar á meðal þingmönnum, er rætt við Steingerði Hreinsdóttur hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands. Hún lýsir verkefninu mjög jákvætt — við vissum nú aðeins af því áður — og segir að í því felist tækifæri í ferðaþjónustu. Steingerður segir meðal annars að IPA-ferlið hafi verið lærdómsríkt og að styrkurinn feli í sér, með leyfi forseta, „ómetanlegt stofnframlag en vonir standi til þess að verkefnið verði sjálfbært þegar fram líða stundir“.

Telur hv. þingmaður að Steingerður Hreinsdóttir, Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur og Rangárþing eystra, háskólarnir sem að þessu standa og fólkið á Suðurlandi, sé mútuþegar, sé að taka á móti perlum og eldvatni, sé að niðurlægja sjálft sig og Íslendinga með því að fá þennan atvinnuþróunarstyrk á svæðið (Forseti hringir.) sem mátt hefur líða fyrir náttúruhamfarir og ódugnað stjórnmálamanna og ýmissa annarra við að (Forseti hringir.) halda fram hagsmunum á svæðinu? Telur þingmaðurinn það?