140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[23:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af því sem hv. þingmaður sagði réttilega um hv. þm. Jón Bjarnason, að hann hefði alla tíð staðið í lappirnar í þessu máli, langar mig að spyrja hv. þingmann um það sem kemur fram í 1. gr. þessa samnings sem er á bls. 7. Þar segir, með leyfi forseta, um svokallaða IPA-rammareglugerð að „frá og með 1. janúar 2007 er gerningur þessi sá eini lagagrundvöllur sem fjárhagsaðstoð við umsóknarríki og hugsanleg umsóknarríki hvílir á, þ.e. fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu“.

Það getur auðvitað ekki verið skýrara að þetta er hreint og klárt aðlögunarferli. Ég held reyndar að hv. þingmenn Vinstri grænna sem halda því fram að þetta séu einhverjar samningaviðræður við Evrópusambandið en ekki aðlögun trúi því ekki lengur, a.m.k. ekki allir.

Getur verið að hæstv. ríkisstjórn hafi talið sig vera að uppfylla skilyrðin til að taka við þessum styrkjum með því að fara í þær pólitísku hreinsanir sem hv. þingmaður kom inn á?

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann um eitt atriði sem hún kom inn á í ræðu sinni. Meiri hlutinn sem tekur málið út úr nefndinni er í raun og veru 1. minni hluti. Fjórir hv. þingmenn afgreiða málið og við vitum svo sem hverju það sætti. Telur hv. þingmaður þetta boðleg vinnubrögð, að þegar mál séu svona umdeild séu þau afgreidd út úr nefndum með minni hluta en ekki meiri hluta? Ég man reyndar ekki eftir mjög mörgum málum (Forseti hringir.) sem eru með þessum hætti.