140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara svona vel yfir hvernig staðið hefur verið að aðildarviðræðunum og aðlögunarviðræðunum við Evrópusambandið. Ég held að lýsing hans sé alveg rétt á ferlinu eins og það hefur blasað við okkur og við þekkjum sem höfum verið að skoða þessi mál og kynna okkur þau.

Hv. þingmaður sagði áðan að það hafi valdið mikilli undrun þegar sendimenn Evrópusambandsins komu hingað til lands í upphafi og gerðu sér þá grein fyrir því að þeir stjórnmálaflokkar sem stæðu að ríkisstjórn og bæru ábyrgð á aðildarferlinu hefðu ólíkar skoðanir varðandi aðildarumsóknina að Evrópusambandinu. Það kann að hafa verið þannig í upphafi, það kann að hafa verið munur á VG og Samfylkingunni þegar kom að aðildarumsókninni en hann er ekki lengur fyrir hendi. Í dag kemst ekki hnífurinn á milli þessara tveggja flokka, ég á auðvitað við þingflokkana hér á Alþingi með heiðarlegum undantekningum.

Við sjáum að þessi trippi eru ekki bara rekin af Samfylkingunni, þau eru ekki síður rekin af Vinstri grænum. Og það kom mjög skýrt fram í atkvæðagreiðslunni hér fyrr í dag hvernig þingflokkur VG, með einhverri einni eða tveimur undantekningum, þyrptist að því að mótmæla því að þessi mál yrðu núna borin undir þjóðina. Ég sé því engan mun lengur á þessum flokkum.

Það kom líka fram í dag, til dæmis í atkvæðaskýringu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur sem sagði svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Því miður hafa margir sem eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið dregið lappirnar í þessu máli svo það er ekki orðið efnislega skýrara en það er í dag hvað er í pakkanum.“

Hér vék hv. þingmaður að hv. þm. Jóni Bjarnasyni, fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi beinlínis dregið lappirnar í þessu máli. Við vitum um afstöðu hv. þingmanns og ég virði hana, við erum sammála í þeim efnum, en það væri fróðlegt ef hv. þingmaður (Forseti hringir.) mundi vilja bregðast við þessum orðum hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur.